Hinn 18. júlí sl. birtist í Fiskifréttum eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson.
Aflaregla býður ekki upp á sveigjanleika í ákvörðunartöku.
Endurskoða þarf nýtingastefnu fyrir þorsk
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra, ákvað 5. júlí síðastliðinn heildarafla á fiskveiðiárinu 2013/2014. Ráðherrann tók þá ákvörðun að fylgja í einu og öllu ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Varðandi þorskinn er ráðherrann bundinn af nýtingarstefnu stjórnvalda sem er til 5 ára og fyrst var veitt ráðgjöf eftir 2010, en í öðrum tegundum er ráðherra óbundinn því sem Hafró ráðleggur.
Skiptar skoðanir um aflareglu
Nauðsynlegt er að halda því til haga að ráðherrann hefur ekkert svigrúm varðandi ákvörðun um heildarafla í þorski, honum er skylt að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í einu og öllu. Má því með sanni segja að þar sé orðið „ráðgjöf merkingarlaust, þar sem stjórnvöld ákváðu með samþykkt nýtingarstefnu í þorski að framselja ákvörðunarvaldið til Hafrannsóknastofnunar. Stofnunin er því sá aðili sem ákveður árlega hversu mikið verði veitt af þorski til og með fiskveiðiárinu 2014/2015. Nýtingarstefnan heimilar ekkert frávik frá 20% aflareglu sem mælir svo fyrir um að aflamark fyrir þorsk skuli vera samanlagt heildaraflamark yfirstandandi fiskveiðiárs og 20% af veiðistofni deilt með 2 eða eins og nú er: (195.400 + 0,2 · 1.173.000) / 2 = 215.000
Skiptar skoðanir eru um þessa ákvörðun og hefur ráðherra látið hafa eftir sér að til greina komi að breyta aflareglunni sem nýtingarstefnan inniheldur í þá átt að gera hana sveigjanlegri. Sjónarmið ráðherrans eru í takt við tveggja ára gamla niðurstöðu samráðsvettvangs um nýtingu helstu nytjafiska sem Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði í nóvember 2010.
Býður ekki upp á sveigjanleika
Þar sem nú fer í hönd endurskoðun á nýtingarstefnunni er rétt að rifja upp lítið brot af því sem fram kemur í skýrslu hópsins.
Þar er vikið að göllum á núverandi aflareglu fyrir þorsk. Þar segir: „Hún býður ekki upp á sveigjanleika í ákvörðunartöku til að taka tillit til skilyrða sem kalla á viðbrögð til skemmri tíma.
Síðar í skýrslunni segir:
„Það er nokkrum vandkvæðum bundið að skilgreina sveigjanleika í ákvörðunartöku um aflamark innan ramma aflareglu, sem tekur tillit til margvíslegra vísbendinga um aðstæður í hafinu. Í fyrsta lagi er erfitt að skilgreina nákvæmlega hvert aflamark á að vera við ólíkar aðstæður, enda getur samspil aðstæðna orðið mjög flókið. Í öðru lagi geta upplýsingar sem gefa vísbendingu um ástand í hafinu verið mjörg fjölbreytilegar, svo útilokað er að gera nokkra tæmandi grein fyrir þeim í aflareglunni. Að auki fleytir mælingum og skráningu afla og ástands fram sem og skilningi okkar á fiskistofnum og vistkerfum hafsins. Hins vegar mætti skoða hvort hægt væri að taka tillit til breytinga á stofnmati þegar breytingnr víkja frá því sem búist var við, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. Aflaregla sem innhéldi efri og neðri mörk fyrir fiskveiðidánatíðni mætti einnig meta.
Endurskoða heildarafla í ýsu og steinbít
Ráðherra ákvað að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í ýsu og steinbít. Það eru mér vonbrigði að hann tók ekki tillit til sjónarmiða Landssambands smábátaeigenda um 50 þús. tonna heildarafla í ýsu og 8.500 tonn í steinbít.
Í rökstuðningi með ýsunni kemur fram að smábátaeigendur hefðu orðið varir við bakslag í veiðunum 2010, en undanfarin tvö ár hefur stofninn aftur verið að braggast. Sambærileg teikn eru á veiðislóð togara eftir 3ja ára samfelda ördeyðu.
Orðrétt úr bréfi LS til ráðherra: „LS er ekki sammála tillögu Hafrannsóknastofnunar um að ekki sé óhætt að veiða meira en 38 þús. tonn á komandi fiskveiðiári og hvetur þig til að heimila 50 þús. tonna veiði. Hætt er við að verði farið eftir tillögum Hafró geti það framkallað brottkast og mikla erfiðleika við þorskveiðar.
Tækifæri til að byggja steinbítsstofninn upp
Í rökstuðningi LS um eitt þúsund tonna veiði umfram tillögu Hafró í steinbít segir m.a. eftirfarandi:
„Tillagan er nokkru lægri en í fyrra, þegar LS mælti með 12 þús. tonnum. Ástæða þess er einkum sú að sölutregða er á steinbít og því ágætt tækifæri til að byggja stofninn upp.
Annars hafa veiðar á steinbít gengið vel úti fyrir Vestfjörðum. Útbreiðsla er mikil og gamlar veiðislóðir aftur farnar að gefa góðan afla. Sjómenn eru sammála því að stækkun friðunarsvæðisins er byrjuð að skila árangri. Auk vaxandi afla og útbreiðslu er nú aftur orðið vart við smærri steinbítinn, þ.e. að nýliðun hefur batnað.
LS ítrekar þá skoðun að banna eigi beina sókn í steinbít með dregnum veiðafærum. Þá hvetur LS þig til að stækka friðunarsvæði á Látragrunni, þannig að steinbítur á hrygningarslóð verði friðaður yfir hrygningar- og klaktíma.
Hér með er skorað á sjávarútvegsráðherra að endurskoða ákvörðun sína um heildarafla á ýsu og steinbít.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.