Afli í 48 daga strandveiðikerfi

Eins og fram hefur komið er nú til umfjöllunar í atvinnuveganefnd Alþingis frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.  Um er að ræða bráðabirgðaákvæði til eins árs sem fjallar um strandveiðar.   Í stað mánaðarlegan viðmiðunarafla verður miðað við heildarafla fyrir allt tímabilið.  Heimilt verður að stunda veiðar í 12 daga í hverjum mánuði þangað til að heildar potturinn klárast. 
Fyrstu viðbrögð við frumvarpinu eru á ýmsa vegu eins og við var að búast. Aðallega hafa menn áhyggjur af því að potturinn klárist snemma og veiði verði jafnvel stöðvuð í upphafi ágústmánaðar eða fyrr.
Samkvæmt viðtali við Lilju Rafneyju formann atvinnuveganefndar Alþingis í hádegisfréttum RUV 25. mars verður potturinn 11.200 tonn sem eru 2.000 tonnum meira en hann var við upphaf strandveiða í fyrra.  
Þegar tekið er mið af svari Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er engin ástæða til að óttast það að 11.200 tonn dugi ekki til að tryggja 12 veiðidaga í hverjum mánuði.  
Ráðherra var spurður um hvaða áhrif það gæti haft á heildarafla strandveiðibáta að heimila þeim veiðar fjóra daga í viku frá 2. maí til og með 30. ágúst 2018 miðað við að fjöldi báta verði óbreyttur frá árinu 2017.
Svar ráðherra er skýrt:  Árið 2017 hefði þetta haft þau áhrif að afli hefði aukist um 3.941 tonn og heildarafli orðið 13.701 tonn.
Að veiða fjóra daga í viku má jafna við 16 daga í mánuði.  Frumvarp atvinnuveganefndar gerir hins vegar ráð fyrir 12 dögum í mánuði.  Það er því hægðarleikur fyrir nefndina koma til móts við gagnrýniraddir á frumvarpið þannig það tryggi strandveiðar 12 daga í mánuði.  Samkvæmt svari ráðherra mundi heildarafli í slíku kerfi verða 10.275 tonn.   
Stjórn LS mun funda um frumvarpið þann 6. apríl nk. og senda frá sér umsögn um það.
Rétt er að benda á að allir geta veitt umsögn og rennur frestur til þess út 9. apríl næstkomandi.
IMG_3635 copy.jpg