Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að fara í einu og öllu eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar um heildarafla á næsta fiskveiðiári. Ákvörðun ráðherra eru mikil vonbrigði, einkum það sem tekur til þorsks og löngu.
Í frétt um ráðgjöfina er eftirfarandi haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„„Ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar var viss vonbrigði miðað við væntingar. Við erum að sjá ákveðin lúxusvanda á Íslandi vegna góðrar fiskveiðistefnu og þurfum að styrkja hafrannsóknir til þess að leita skýringa á því til dæmis hvers vegna nokkrir árgangar þorsksins eru að léttast.
Landssamband smábátaeigenda hefur haldið uppi gagnrýni á tillögu Hafrannsóknastofnunar og hvatt ráðherra að fara ekki í einu og öllu eftir þeim. Sérstaklega á þetta við þorskinn þar sem lækkun meðalþyngdar í afla í togararalli er sögð helsta skýring fyrir aðeins 2,1% aukningu. Sú skýring stangast hins vegar á við upplifun sjómanna og meðalþyngdar í afla. Til þessa hafa sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar ekki getað gefið neina skýringu á þessum mismun.
Botn- og flatfiskur óbreyttur milli ára
Í frétt á heimasíðu Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisns er birt tafla um heildaraflamark einstakra fisktegunda þar sem ákvörðun ráðherra er borin saman við heildaraflamark á yfirstandandi fiskveiðiári. Í uppsetningu LS kemur fram m.a. fram að heildarafli botn- og flatfisks er nánast óbreyttur milli ára – 450 þúsund tonn.