Atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þar er lagt til að gjald sem smábátum er skylt að greiða fyrir veiðiheimildir sem fengnar eru úr sérstökum makrílpotti – alls 2.000 tonn – verði lækkað. Það yrði í samræmi við lækkun á veiðigjaldi sem varð 1. september sl. Í dag er gjaldið 8 krónur, en færi þá væntanlega niður fyrir 3 krónur ef frumvarpið nær fram að ganga. Það sama mundi eiga við gjald sem greiða þarf fyrir síld.
Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að hámarksmagn sem hægt er að fá í einu verði hækkað úr 20 tonnum í 35 tonn.
Lokið er 1. umræðu um frumvarpið og er ekki annað að sjá en góð sátt sé með efni þess.