Alþingi samþykkir lækkun veiðigjalda

Eitt af síðustu verkefnum sumarþings var að samþykkja breytingu á lögum um veiðigjöld.  Frá og með næsta fiskveiðiári lækkar sérstakt veiðigjald vegna botnfiskveiða en hækkar vegna veiða á uppsjávarfiski.
Almennt veiðigjald verður óbreytt 9,50 kr. á hvert þorskígildiskíló. 
Afsláttur af sérstöku veiðigjaldi, vegna greiðslu vaxta af lánum sem tekin voru vegna kvótakaupa, verður óbreyttur.  Þá verða viðmiðunarmörk á sérstöku veiðigjaldi óbreytt, fullt gjald greiðist af þorskígildistonnum umfram 100, hálft gjald af 70 tonnum og ekkert sérstakt veiðigjald af 30 tonnum.
Veiðigjald er með lagabreytingunni aðeins ákveðið fyrir næsta fiskveiðiár og greiðist af sérstöku þorskígildiskílói.  Fullt sérstakt veiðigjald verður 7,38 kr á hvert þorskígildiskíló en er nú 23,20 kr á hvert þorskígildiskíló.