Ályktun stjórnarfundar LS frá í júlí s.l.

Stjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda (LS), haldinn dagana 13.-15.

júlí 2011 ályktar eftirfarandi:

Stjórn LS lýsir gríðarlegum vonbrigðum með ákvarðanir stjórnvalda um

veiðiheimildir næsta fiskveiðiárs, sérstaklega varðandi þorsk og ýsu. Þessar

ákvarðanir sýna að hin opinbera nýtingarstefna sem byggir á togararalli,

reiknikúnstum og aflareglu er með öllu sambandslaus við raddir, reynslu og

þann raunveruleika sem veiðimenn lifa við. Þetta gerist árum saman þrátt

fyrir ítrekuð loforð stjórnvalda um hið gagnstæða og fögur orð við hátíðleg

tækifæri um mikilvægi þeirrar þekkingar sem veiðimenn búa yfir.

Stjórn LS telur það algert forgangsmál að stjórnvöld leggi af núverandi

nýtingarstefnu og taki upp gjörbreytt vinnubrögð. Það eitt, að

Hafrannsóknastofnunin telji það „árangur erfiðis að auka

þorskveiðiheimildir úr 160 þúsund tonnum í 177 þúsund tonn opinberar að

stofnunin neitar með öllu að horfast í augu við þá staðreynd að mælingar

hennar á stærð fiskistofna er í flestum tilfellum algerlega á skjön við

reynslu veiðimanna. Það er ekki langt síðan að 350 þúsund tonna þorskafli

átti að vera „við sjóndeildarhringinn, yrði ráðleggingum stofnunarinnar

fylgt. Það hefur verið gert – og „árangurinn er einn minnsti þorskafli sem

heimilaður hefur verið á Íslandsmiðum.

Við framangreindar ákvarðanir var að auki ekkert tillit tekið til þeirra sem

verst hafa farið út úr niðurskurði veiðiheimilda í þorski og ýsu hin síðari

ár. 

Þetta eru þeir smábátaeigendur sem byggja afkomu sína á þessum tegundum og

þraukað hafa í gegn um þykkt og aðallega þunnt. Þetta eru þeir sem keypt

hafa veiðiheimildir til að bæta upp niðurskurð í viðkomandi tegundum, í

trausti þess að þegar kæmi að aukningu myndu þær fjárfestingar skila sér.

Þessir hinir sömu horfðu nú upp á að stjórnvöld sáu með samþykkt „litla frumvarpsins ástæðu til að skerða enn frekar þessar veiðiheimildir, til þess eins að úthluta inn í strandveiðikerfið og þar með að stórum hluta til þeirra sem þáðu stórfé fyrir að færa þær frá sér. Þessu mótmælir stjórn LS harðlega.

Stjórn LS skorar á stjórnvöld að laga strandveiðikerfið að raunverulegri

nýliðun og hætta að draga ætlaðan afla í því kerfi frá veiðiheimildum

annarra. 

Á sama hátt er það krafa stjórnar LS að afli sem settur er í aðra „potta sé

dreginn jafnt af uppsjávarveiðiskipum sem öðrum. Allir sem ályktuðu um þetta

atriði voru því sammála – utan sjávarútvegsnefnd alþingis og alþingi sjálft.

Alþingi skuldar skýringu á þessum furðulegu vinnubrögðum.

LS hefur frá upphafi lýst stuðningi við strandveiðarnar en alltaf tekið fram

að sá afli ætti ekki að skerða aðrar veiðiheimildir. Á sama hátt hefur LS

allt frá stofnun krafist frjálsra handfæraveiða og að sá afli yrði höndlaður

sem óvissustærð og reiknuð eftirá.

Viðbárur stjórnvalda hafa verið að slíkt fyrirkomulag rúmist ekki innan

alþjóðlegra skuldbindinga og krafna erlendra kaupenda um ábyrgar fiskveiðar.

Þetta er aumkunarverður málflutningur sömu stjórnvalda og leyfa hvalveiðar

þrátt fyrir mikla andstöðu víða erlendis og hika ekki við að opna enn þann

dag í dag fyrir stórvirkar botnvörpur inn á viðkvæm hrygningarsvæði nálægt

landi. Andstaðan við þau veiðarfæri fer vaxandi og þau jafnvel bönnuð á

vissum svæðum erlendis.

Í ljósi framangreinds ætti ekki að koma á óvart að stjórn LS hafnar „stóra

frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem nú er til meðferðar í sjávarútvegsnefnd

alþingis. Frumvarpið gengur þvert á yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar.

Stjórn LS hefur áður reynt að vekja athygli á eftirfarandi klausu úr

stjórnarsáttmálanum:

„…afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og

treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði

leitað sátta um stjórn fiskveiða.

Frumvarpið, að óbreyttu, mun grafa markvisst undan rekstrargrundvelli

smábátaútgerðarinnar. Það er beinlínis kaldhæðnislegt að notuð séu orðin

„bestu rekstrarskilyrði og „sátt í sömu setningu.

LS hefur alla tíð viljað leggja sitt af mörkum til að ná sem víðtækastri

sátt um málefni sjávarútvegsins. Sú afstaða er óbreytt. LS skorar á

sjávarútvegsnefnd að vinna hugsanlegar breytingar á stjórnkerfi fiskveiða í

sátt og samvinnu við smábátaeigendur.