Á aðalfundi Snæfells bar það til tíðinda að Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda greindi fundarmönnum frá því að hann hygðist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku.
Í stuttu ávarpi sagði Arthur margvíslegar ástæður að baki þessari ákvörðun. Það væri hans mat að nú væri rétti tíminn til að stíga til hliðar. Arthur var aðal hvatamaður þess að LS var stofnað hinn 5. desember 1985 og hefur verið formaður félagsins síðan.
Arthur sagðist afar stoltur með þau margvíslegu réttindi sem LS hefði náð í sögu sinni. Árangur félagsins væri einsdæmi og gríðarleg hvatning fyrir menn að standa saman um sem öflugasta smábátaútgerð.
Eitt af því sem hann teldi markverðast í sögu félagsins væri þátttaka LS í uppbyggingu félagsstarfs strandveiðimanna á alþjóðlegum vettvangi. Nafn LS væri víða þekkt meðal smábátaeigenda og strandveiðimanna sem og að vera kunnugt mörgum stórum kaupendum fiskafurða. Arthur var formaður Alþjóðasamtaka strandveiðimanna 2004-2012, en gaf ekki lengur kost á sér í nóvember sl. á aðalfundi samtakanna.
Hann minnti menn á umfjöllun Fiskifrétta af stofnfundi LS sem bar fyrirsögnina „Krefjumst frjálsra veiða. Þó allt væri í heiminum hverfult lægi hjarta hans þar ennþá. Allir stærstu sigrar félagsins hefðu unnist vegna þess að félagið hefði barist fyrir almennum réttindum en ekki sérhagsmunum. Þannig hefði LS fengið gríðarlegan byr í seglin frá almenningi.
Það væri sín ráðlegging og ósk að þeir sem tækju við keflinu hefðu þetta að leiðarljósi í sinni baráttu, sagði Arthur Bogason.