Aukið aflamark í ýsu!

Oft var þörf en nú er nauðsyn
Aukið aflamark í ýsu er heiti greinar sem Halldór Ármannsson ritar í Fiskifréttir sem út komu í 9. mars sl.
„Þess vegna segi ég að ráðherra
sjávarútvegsmála þarf að hafa bein
í nefinu til þess að taka ákvörðun um
að gera breytinga þegar þeirra er þörf

„Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið greint frá þeim vanda sem steðjar að fiskimönnum við strendur landsins vegna samsetningar afla.  Það sem ég er að vísa til er að ýsa, sem á að vera í næstum algeru lágmarki samkvæmt útgefnu heildaraflamarki byggt á ráðgjöf Hafró, veiðist sem aldrei fyrr. Búið er að veiða hátt í 65% af aflaheimildum fiskveiðiársins þrátt fyrir að það sé rétt hálfnað þegar þetta er skrifað. 
Breyttar aðstæður

Þetta gerist þrátt fyrir að nærri allur skipa- og bátaflotinn hafi haft það sem sitt helsta markmið að forðast ýsu og ýsuslóðir eins og heitan eldinn.  Það eru því breyttar aðstæður sem við stöndum frammi fyrir miðað við fyrir nokkrum árum þegar mörg friðuð hólf og svæði, sem höfðu verið lokuð í árum saman, voru opnuð í þeim eina tilgangi að ná að veiða útgefinn heildarafla ýsu á þeim fiskveiðiárum.
Breytingarnar sem orðið hafa á sjávarhita eru ekkert óskaplega miklar, en eru þó nægar til þess að valda því að æti, s.s. svif, þörungar o.fl., hefur færst norðar og breytingar hafa orðið á göngumynstri fisktegunda í kjölfarið.  Einnig hafa aðrar fisktegundir gengið inn í lögsöguna sem styður það mat okkar enn frekar að breytingar eru að eiga sér stað.
HÁrm.jpg
Eru sjómenn ekki marktækir?

Í dag þurfum við að sækja lengra og dýpra út þar sem vænta má þess að fjær landi sé hlutfall þorsks í afla meira og hlutfall ýsu minna.  Sem sjómaður hef ég það á tilfinningunni að mælingar í togararalli Hafrannsóknastofnunar gefi  talsvert skakka mynd af því sem á sér stað nær landi eða á grunnslóðinni. Langflest togin í rallinu eru tekin lengra frá landi, en á grunnslóðinni eru togin hlutfallslega miklu færri og vigta þau þá mun minna inn í reikniregluna. 
Við sjómenn höfum margoft bent á að það þyrfti að koma á línuralli eða taka eitthvert mark á öllum þeim skýrslum og gögnum sem við þurfum að skila af okkur í hverri veiðiferð eða hafa þau allavega til hliðsjónar við aflaráðgjöf hvers fiskveiðiárs.
Lokaákvörðunin hjá ráðherra 

Sjávarútvegsráðherra hefur allt um það að segja hvert verður aflamark hverrar fisktegundar á yfirstandandi fiskveiðiári.  Þar er Hafrannsóknastofnun ráðgefandi, já ráðgefandi, en ekki allsráðandi eins og virðist eiga orðið við í einu og öllu í dag.  Það virðist vera að menn þori ekki að axla þá ábyrgð að gera breytingar á útgefnu aflamarki á yfirstandandi fiskveiðiári af hræðslu við að það setji alla markaði og skuldbindingar í uppnám.
Það má ekki negla  og njörva  útgefið aflamark svo rækilega niður á hverju fiskveiðiári, að veiðar, vinnsla og markaðir séu í uppnámi þegar fiskgengd umhverfis landið er í hróplegu ósamræmi við mælingar þeirra sem þær stunda.
Ekki bara þörf, heldur nauðsyn

Þess vegna segi ég að ráðherra sjávarútvegsmála þarf að hafa bein í nefinu til þess að taka ákvörðun um að gera breytingar þegar þeirra er þörf.   Ef einhvern tímann hefur verið þörf á að auka heildarafla einnar fisktegundar innan fiskveiðiársins þá er það núna.  Það er ekki bara þörf heldur nauðsyn, því allflestir sem  yrkja fiskimiðin gera sér grein fyrir því að útgefið aflamark í ýsu er ekki nægjanlegt fyrir meðafla þegar stundaðar eru veiðar á öðrum tegundum.
Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda