Auknar veiðar smábáta í anda Parísarsamkomulagsins

Aðalfundur Smábátafélags Reykjavíkur var haldinn í gær, 14. september.  Fundurinn var sá fjölmennasti í áraraðir og ber vott um baráttuhug smábátaeigenda og samheldni.
Helstu málefni sem rædd voru snérust um grásleppuveiðar, veiðigjöld og strandveiðar.
Fundurinn var sammála um að breytingar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu hefðu komið vel út.  Þar mætti hins vegar gera betur og nauðsynlegt að auka við afla til strandveiða og lengja tímabilið úr 4 mánuðum í 6 og fækka banndögum.  
Miklum vonbrigðum var lýst með að leiðrétting hefði ekki verið gerð á veiðigjöldum.  Upphæð gjaldsins endurspeglaði ekki afkomu minni báta.  Nauðsynlegt væri að stjórnvöld mundu ekki draga lappirnar í að breyta lögum um veiðigjald, þar sem gert væri ráð fyrir endurgreiðslu fyrir oftekin gjöld á nýliðnu fiskveiðiári.  
IMG_8651.png
Umræða um grásleppumál var fyrirferðamikil á aðalfundi Smábátafélags Reykjavíkur.  Sú spurning var áleitin hvers vegna verið væri að ræða kerfisbreytingu þegar núverandi stjórnun hefði að mestu leyti reynst vel.  
Eftirfarandi var samþykkt: 
 
Aðalfundur Smábátafélags Reykjavíkur mótmælir 
harðlega að grásleppuveiðar verði kvótasettar.
 
Gagnrýni kom fram á Hjálmar Sveinsson formann stjórnar Faxaflóahafna, að hann sýndi smábátaútgerðinni ekki nægjanlegan skilning.  Mikilvægi hennar væri ótvírætt og því nauðsynlegt að stjórn hafnarinnar legði sitt að mörkum í stuðningi við smábátaútgerðina.  Aukin áhersla á smábátaútgerð ætti að vera eitt af framlagi stjórnvalda til Parísarsamkomulagsins.   Veiðar smábáta væru umhverfisvænar og fiskur frá þeim með lægra fótspor en annað útgerðarform.
Þorvaldur Gunnlaugsson var endurkjörinn formaður Smábátafélags Reykjavíkur.  
Tillögur fundarins verða birtar á næstu dögum.
Félag smábátaeigenda í Reykjavík copy 2.jpg