Axel Helgason trillukarl ársins

Sýningin Sjávarútvegur 2016 var opnuð í dag að viðstöddu fjölmenni.  Sýningin er í Laugardalshöll og mun standa yfir til föstudags.  Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Jean Reid klipptu á borða við opnun sýningarinnar, eftir að Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra hafði flutt opnunarávarp.
Í opnunarathöfn sýningarinnar voru veittar viðurkenningar.  Landssamband smábátaeigenda tilnefndi Axel Helgason trillukarl ársins.  Eliza Jean Reid forsetafrú afhenti Axel verðlaunin.
wSjavarutegur_280916_JSX6351.jpg
Á myndinni er Axel með viðurkenningaskjal frá Landssambandi smábátaeigenda og Elíza Jean Reid forsetafrú með verðlaunagripinn sem gefinn var af Sjóvélum. 
Axel Helgason smíðaði sjálfur bát sinn Sunnu Rós og kláraði 2014.  Sama ár hóf hann makrílveiðar.  Sunna Rós er útbúin makrílveiðibúnaði sem Axel smíðaði og er eftirtektarvert hve einfaldur, léttur og afkastamikill hann er.  Auk þess er hugsað fyrir öryggi sjómannsins um borð því krókar makrílslóðanna eru að mestu leyti utan og aftan á bátnum.
Sunna Rós er með aflahæstu makrílbátunum 2016 þrátt fyrir Axel hafi verið einn um borð.  
Þá hefur hann einnig stundað grásleppuveiðar sl. 2 ár með góðum árangri.
Grásleppunetin fellir hann með fellingarvél sem hann smíðaði og tekur ekki nema nokkrar mínútur að fella hvert net. 
Öryggisatriði eru Axel ofarlega í huga og við grásleppuveiðarnar setur hann léttan álkassa aftan á bátinn þar sem grásleppunetin eru dregin gegnum niðurleggjara en svo lögð upp úr kassanum. Því er minni hætta á að áhöfn sé nálægt eða við veiðarfæri þegar þau eru lögð aftur í sjó. Það þarf varla að taka það fram að auðvitað smíðaði Axel þennan búnað sjálfur.
Axel er vel að viðurkenningunni kominn og óskar Landssamband smábátaeigenda honum til hamingju.
wSjavarutegur_280916_JSX6462.jpg
Á myndinni er Axel með formanni og framkvæmdastjóra LS
Opnunartími sýningarinnar Sjávarútvegur 2016:
Miðvikudag     kl. 15 – 19
Fimmtudag     kl. 10 – 18
Föstudag        kl. 10 – 18