Fyrirsögnin markaði frétt í DEGI sem gefinn var út á Akureyri á síðustu öld. Í fréttinni, sem birtist þann 24. september 1992, er rætt við Óla H. Ólason frá Grímsey þar sem hann var á veiðum austur á Mánáreyjarhrygg ásamt syni sínum Óla Bjarna. Fréttin var eftirfarandi:
„„Aflinn í dag er dágóður. Við erum austur á Mánáreyjarhrygg í ufsa og búnir að fá þrjú tonn. Hér vaða höfrungar um allan sjó, ólíkt því sem var úti við Kolbeinsey á mánudaginn. Þar lentum við inn í hnúfubakstorfu, en sluppum með skrekkinn, sagði Óli H. Ólason frá Grímsey um miðjan dag í gær.
Sjómenn í Grímsey segja óvenju mikið um stórhvali norður af Grímsey og höfrungar eru um allan sjó. Óli Hjálmar Ólason ásamt syninum Óla Bjarna róa á sex tonna trillu þá er gefur. Um sex mílur framan við Kolbeinsey á mánudaginn lentu þeir í hnúfubakstorfu og feðgar segjast hafa séð 11 stórhveli uppi í einu. Einn þeirra flæktist í færunum og kippti bátnum á fulla ferð áfram.
„Strákurinn sá sporð skepnunnar rétt fyrir aftan bátinn. Sennilega hefur hvalurinn orðið hræddur þegar hann sá kænuna og ekki urðum við minna hræddir. Þegar sá stóri lenti í færunum þá hvein út af sjálfvirku rúllunum frá DNG og báturinn skoppaði á haffletinum á eftir hvalnum sem fingubjörg væri. Sem betur fer slitnaði af tveimur rúllum og ég náði að skera af þeirri þriðju. Þar með vorum við lausir úr bráðum háska, en skepna sem þessi hvolfir léttilega trillubát með einu sporðkasti, sagði Óli H. Ólason. ój