Á síðasta ári, nánar tiltekið 12. maí, talaði ég á opnum
fundi á Ísafirði um sjávarútvegsmál þar sem yfirskriftin var „Efling
sjávarbyggðanna – aukið réttlæti. Í
fréttatilkynningu um boðun fundarins var hann hins vegar kynntur sem „almennur
baráttufundur fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þetta hefði
kannski átt að gefa mér tilefni til að mæta ekki til fundarins, þar sem
félagsmenn eiga allt sitt undir því að grunnstoðir kerfisins haldi. En slíkt
hefur nú ekki verið háttur LS, fulltrúar þess mæta hvar sem er til að taka þátt
í sjávarútvegsumræðunni svo sjónarmið félagsins heyrist sem víðast.
Boðaðar
breytingar og væntingar
Af framsögum loknum var ljóst að mín skoðun var nokkuð
fjarri því sem fram hafði komið hjá öðrum frummælendum. Ég ákvað að halda mér
við væntanlegar breytingar á stjórnkerfi fiskveiða sem boðaðar höfðu verið í
sáttmála stjórnarflokkanna. Erindi annarra byggðust að megninu til á breytingum
á kerfinu sem þeir höfðu væntingar til en ég gat ekki séð að samrýmdust
markmiðum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál. Ekkert er
við það að athuga að fylgja eftir væntingum sínum, en slæmt þykir mér þegar þær
eru farnar að taka menn á taugum og einstakir aðilar telja málflutning einnar
manneskju svo áberandi að hann yfirtaki það sem stendur í sáttmála
stjórnarflokkanna.
Markmiðin
í stjórnarsáttmálanum
Vegna þessa þykir mér rétt að rifja upp fyrir lesendum
það sem stendur í sáttmálanum um sjávarútvegsmál. Markmiðin eru þessi:
·
„Að fiskveiðar umhverfis
landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og
vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa,
lífríkis og hafsbotns.
·
„Að veiðiheimildir skuli
ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni.
·
Að „íslenskur
sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem
framundan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu
rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstargrundvöllinn til langs
tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.
Engin bylting boðuð
Af þessum markmiðum má sjá að ekki er verið að boða neina
byltingu í stjórnkerfi fiskveiða, hvað þá að kollvarpa eigi kerfinu eins og
heyra má frá einstaka aðilum. Sjónarmið þeirra stjórnarþingmanna sem því halda
fram eru ekki í samræmi við það sem boðað er í framangreindum markmiðum.
Neikvæð umræða um sjávarútveginn sem geisað hefur mánuðum
saman er því á villigötum og endurspeglar ekki á nokkurn hátt markmiðin sem koma
fram í stefnuyfirlýsingunni. Þarna hefur pólitíkin villt mönnum sýn bæði
stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum.
Byltingarkenndar skoðanir um breytingar á stjórnkerfi fiskveiða, þar sem
látið er að því liggja að þær séu skoðanir stjórnarflokkanna, eru í stórum
dráttum byggðar á misskilningi sem skapast hefur af væntingum þingmanna og
túlkun einstakra hagsmunaaðila við millilínulestur.
Eignarhaldið
á auðlindinni
Allt tal um breytingar sem ekki falla að ofangreindum
markmiðum er ekki ástæða til að birta sem fyrstu frétt. En á hverju er þá
málflutningurinn byggður? Varla er hægt að afgreiða hann sem innihaldslausar
væntingar þótt ég haldi því hér fram. Þar er vitnað til þátta í
stefnuyfirlýsingunni sem komið hefur í ljós með rannsóknum og niðurstöðum
endurskoðunarnefndarinnar að samræmast ekki markmiðunum. Hér skulu nefnd þrjú
atriði úr stefnuyfirlýsingunni sem lúta að eignarhaldinu:
1. „að með sérstöku ákvæði í
stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskistofnar umhverfis landið séu sameign
þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki
undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra
aðila yfir heimildunum.
2. „skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar
3. „leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili
í samræmi við stefnu beggja flokka.
Sáttin
í endurskoðunarnefndinni
Með starfi endurskoðunarnefndarinnar hefur myndast sátt
sem meirihluti hennar stendur að, það er að segja að innkalla veiðiheimildir og
gera samning við þá sem nú hafa veiðirétt um að nýta auðlindina og skapa þannig
verðmæti fyrir þjóðina. Með langtímasamningi við veiðiréttarhafa myndu þeir
afsala sér öllum kröfum um eignarrétt og þannig yrði það óumdeilt að sjávarauðlindin
yrði í eigu þjóðarinnar.
Það er gríðarlega mikilvægt að aflétta því ófriðarfargi
sem verið hefur um sjávarútveginn þannig að hann getir staðið undir þeirri
ábyrgð sem á honum hvílir að gegna lykilhlutverki við þá endurreisn
atvinnulífsins sem framundan er, eins og segir í stefnuyfirlýsingu
ríkisstjórnarinnar.
Höfundur
er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.