Á fundi stjórnar LS 17. júlí sl. var töluverð umræða um byggðakvóta.
Í nýsamþykktum breytingum á lögum um stjórn fiskveiða var ákveðið að framlengja ákvæði til bráðabirgða um 2.500 tonn af þorski og 500 tonn af ufsa til viðbótar lögfestum byggðakvóta. Ákvæðið gildir í eitt ár.
Auk þessa var bætt inn ákvæði í lög um stjórn fiskveiða að næstu fimm árin, 2013/2014 til og með 2017/2018 hefði Byggðastofnun til ráðstöfunar árlega 1.800 þorskígildi (þorskur, ýsa, ufsi, steinbítur). Byggðastofnunarbyggðakvótanum á stofnunin að ráðstafa til byggðarlaga í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
Veiðiheimildirnar koma til viðbótar við þann byggðakvóta sem nú er.
Samkvæmt reglugerð um veiðar í atvinnuskyni 2013/2014 verða heimildir alls sem ráðstafað er sem byggðakvóta eftirtaldar (óslægt):
þorskur 7.024 tonn
ýsa 1.224 tonn
steinbítur 245 tonn
ufsi 2.084 tonn
Ályktun um byggðakvóta:
Fundur í stjórn Landssambands smábátaeigenda haldinn á Raufarhöfn 17. júlí 2013 ítrekar samþykkt aðalfundar félagsins um breytingar á reglum um úthlutun byggðakvóta. Byggðakvóti verði sem ívilnun fyrir dagróðrabáta sem eiga heimahöfn í byggðalögum sem uppfylla skilyrði þar til gerðra reglna um úthlutun.