Drangey mótmælir fyrirætlan ráðherra

Drangey-smábátafélag Skagafjarðar hefur brugðist við fyrirætlan matvælaráðherra að tryggja ekki strandveiðar til ágústloka.  Jafnframt gagnrýnir félagið ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem það segir rúna trausti yfirgnæfandi meirihluta skipstjórnar- og fiskimanna.
Eftirfarandi ályktun hefur verið send matvælaráðuneytinu:
Drangey-smábátafélag Skagafjarðar gagnrýnir þá fyrirætlan matvælaráðherra að stöðva enn einu sinni strandveiðar áður en lögboðnu strandveiðitímabili lýkur, nú jafnvel í lok júlí. Enn verri er þó tillaga ráðherra um að hverfa frá 4 x 12 daga fyrirkomulagi veiðanna sem komið var á fyrir fimm árum og taka aftur upp svæðisbundnar „ólympískar veiðar handfærabáta með tilheyrandi slysahættu og ójafnræði milli útgerða og byggðarlaga. 


Drangey – smábátafélag Skagafjarðar vekur líka athygli á að sú vísindalega ráðgjöf sem ráðherra segist fara eftir er rúin trausti yfirgnæfandi meirihluta skipsstjórnarmanna og annarra fiskimanna um allt land. Taka má mörg dæmi um ótrúverðugleika ráðgjafarinnar en nærtækast að nefna að um 150.000 tonnum munar á þeim stofnstærðarmælingum á þorski sem fram fóru sl. vor og haust og ráðgjöfin byggist helst á. Það er því í grátbroslegri mótsögn við heilbrigða skynsemi þegar því er haldið fram í ráðgjöfinni að 1000 þorsktonn til eða frá séu til þess fallin að ógna sjálfbærni í veiðum úr þessum stofni.
Skagafirði 8. júlí 2022
Magnús Jónsson formaður 

Drangey copy 3.jpg