DRANGEY- Smábátafélag Skagafjarðar fundaði um frumvarp atvinnuveganefndar um strandveiðar 2. apríl sl. Fjörlegar umræður fóru fram um málið og töldu menn ýmislegt jákvætt í frumvarpinu.
Á frumvarpinu væri þó einn stór galli en það er heimildarákvæði til handa Fiskistofu til að stöðva veiðar þegar tilteknu heildarmagni á landsvísu væri náð. Töldu félagsmenn að slíkt fyrirkomulag myndi stórlega mismuna bátum á milli svæða. Fundurinn samþykkti samhljóða eftirfarandi:
- Fundurinn lýsir yfir stuðningi við að heimilt verði að takmarka veiðar við 12 veiðidaga fyrir hvert skip innan hvers mánaðar.
- Fundurinn leggst alfarið gegn því að Fiskistofa geti með auglýsingu stöðvað allar veiðar ef heildarafli flotans stefnir í að fara yfir fyrirfram tiltekinn heildarafla.
- Fundurinn telur, í ljósi þess að hér er um tilraun til eins árs að ræða, eigi ekki að ákveða neinn fyrirfram heildarafla. Strandveiðar eru í eðli sínu sóknarkerfi með ýmsar sóknartakmarkanir og því eigi að gera tilraun með þessar veiðar í eitt ár án aflamarkstakmarkana.
- Verði hins vegar ákveðið að setja aflamarkshámark á þessar veiðar telur fundurinn grundvallaratriði að leyfilegum heildarafla verði skipt á milli svæða í sömu hlutföllum og á síðasta strandveiðiári.
- Loks lýsir fundurinn yfir stuðningi við að ufsaafli teljist ekki til hámarksafla (verði hann ákveðinn). Hins vegar telur fundurinn að selja eigi þann afla á markað enda hefur verð á þessum fiski verið þannig að ekki hefur svarað kostnaði að hirða hann á þeim forsendur sem í gildi hafa verið.
Formaður Drangeyjar er Steinar Skarphéðinsson.