„Dýrkeypt dekur – grein í Fiskifréttum

Í dag birtist í Fiskifréttum eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason, formann Landssambands smábátaeigenda, undir fyrirsögninni „Dýrkeypt dekur:

„Ótrúlegt en satt: Tekjur íslenska þjóðarbúsins af sjávarútvegi ákvarðast í árlegum þriggja vikna rannsóknaleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar. Togararallið í marsmánuði. Áhrifin sem þessi rannsóknaleiðangur hefur er margfalt meiri en flestir utan sjávarútvegs gera sér grein fyrir.
Útbreiddur misskilningur

Innan sjávarútvegsins eru einnig furðu margir sem halda að aflagögn fiskiskipaflotans gegni hlutverki við mat á stofnstærðum ásamt upplýsingum úr togararallinu. Þetta er misskilningur. Einu gögnin sem notuð eru í þessu skyni eru úr togararallinu. Margir innan sjávarútvegsins gera sér heldur ekki grein fyrir því að togararallið er ekki að sækjast eftir afla. Þar er verið að fiska eftir „vísitölu sem miða skal við „vísitölur fyrri ralla.
Helftin af þeim sem byggja afkomu sína á sjávarfangi eru sammála um að togararallið sé stórkostlega gallað til þess brúks sem það er notað. Hið undarlega er að flestir láta sér nægja að bölva því á lokuðum fundum og í tveggja manna samræðum. Ég rakst á eiganda eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins fyrir stuttu. Hann var því hjartanlega sammála að stórauka mætti veiðiheimildir t.d. í þorski á þess að nokkur áhætta væri tekin. Ég hvatti hann til að láta þetta frá sér opinberlega. Vonandi gerist það fyrr en síðar.
Steingeldar reikniformúlur
Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að togararallið sé dýrkeypt dekur við steingeldar reikniformúlur. Þessi aðferð er beinlínis fullkomin til að vanmeta stærðir fiskistofna – s+er +i lagi stofna eins og þorsks og ufsa. Báðir þessir stofnar hafa tileinkað sér atferli botn- og uppsjávarfiska sem og að flakka um stór hafsvæði eftir hentugleikum. Hvernig í ósköpunum á gömul og þreytt botnvarpa sem nær rúma mannhæð frá botni að mæla stærð slíkra stofna? Hvernig á „fast stöðvanet að mæla það þegar fiskistofn hrekkur upp að landinu og inn í firði og flóa, þegar í „föstunni eru sárafá tog næst landi?
„Stöðvanetið
Meðfylgjandi mynd segir meira en mörg orð.
 
Togararallið, vestfirðir[1].png
Hún sýnir „stöðvanetið við Vestfirði og á Breiðafirði. Línan sýnir 12 mílna landhelgina. 25 tog eru innan 12 mílna og talsvert færri innan flóa og fjarða. Yfir 160 tog eru utan 12 mílna á svæðinu sem myndin nær yfir. Svæðið utan 12 mílna er rúmlega helmingi stærra en svæðið innan línu.
Vorrallið 2011 hófst 1. mars. Á miðin lömdu út í storm og stórsjó fimm togskip sem eiga að taka u.þ.b. 600 tog á næstu þremur vikum. Þessi tog eru fyrirfram ákveðin, staður, stund og togtími. Flest þeirra fastsett 1985. Af um 600 togstöðvum eru aðeins rúmlega 100 innan 12 mílna, eða um 20%. Raunveruleg tog inni á flóum og fjörðum eru vart fleiri en 30 talsins, eða 5%. Í þokkabót er á allra vitorði að trollgerðin sem notuð er virkar hörmulega á grunnu vatni. Þessar staðreyndir, eina og sér, segja mér að mælitækið sé ónýtt.
Að fastsetja veðrið
Þrátt fyrir að hægt sé að fastsetja togin, staðinn og stundina er öllu verra viðureignar að fastsetja veðrið. Veðurfarið það sem af er marsmánuði 2011 er allt öðruvísi en á síðasta ári. Nú hefur verið viðvarandi stormur nánast allan tímann, jafnvel svo að vanir sjómenn hafa fengið velgju. Samkvæmt upplýsingum veðurstofunnar var veðrið í fyrra á sama tíma mun skaplegra. Hver einasti togaraskipstjóri getur borið vitni um hversu mikil áhrif veðurfar hefur á fiskeríið. Hvernig fer þetta þá fram? Er reiknimódelið orðið svo forframað að það sé matað á upplýsingum frá Veðurstofunni?
Vinnuhópur um vigtarmál
Viðvarandi vanmat á helstu nýtjastofnum hefur fleiri afleiðingar en að kosta þjóðarbúið ómælda milljarða í tekjum á hverju ári. Sjálfsagt finnst einhverjum langsótt það sem ég vil nefna í þessu sambandi, en fyrir mér er þetta staðreynd.
Í síðustu viku var ég kallaður á fund vinnuhóps á vegum sjávarútvegsráðuneytisins sem vinnur að tillögum um breyttar reglur varðandi vifgtunarmál. Ástæðan fyrir því að slíkur hópur er skipaður er vitaskuld á grunur að fiskkaupendur og -seljendur hafi ekki alveg í öllum tilfellum rétt við í vigtun afla.
Vitaskuld eru dæmi um slíkt. En það mun engu skipta hvernig reglunum er breytt: þeir sem ætla sér að hafa rangt við munu finna til þess leiðir og það fleiri en eina. En hvers vegna gera menn þetta, fyrir utan þá staðreynd að sumir hafa geníska þörf fyrir að sniðganga kög og reglur? 

Virðing fyrir leikreglunum
Ég leyfi mér að halda því fram, að þegar þeir sem vinna alla daga á hafinu og upplifa ástand fiskistofna með allt öðrum hætti en vísindamennirnir fullyrða að það sé, missi þeir smá saman virðinguna fyrir leikreglunum. Þeir sem eru veikir fyrir eiga auðveldar með að réttlæta „fram hjá vigt.
Það er virðingarvert að leita leiða til að koma í veg fyrir að menn hafi rangt við á þessu sviði sem öðrum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar grunnurinn er lélegur og jafnvel ónýtur sé til lítils að dytta að þakplötunum.
Er ekki kominn tími til að reka af sér slyðruorðið sem lengi hefur legið á landanum; að hætta að rífast um tittlingaskít og fara að taka á kjarna málsins.