Hrópleg mismunun


Ekki eru allir jafnir fyrir lögum

Hrópleg mismunun
er yfirskrift greinar eftir Hermann Ólafsson framkvæmdastjóra Stakkavíkur ehf sem birtist í Fiskifréttum 23. október sl.
Oft er gumað að því í opinberri umræðu að Ísland sé réttarríki þar sem allir séu jafnir fyrir lögunum. Jafnframt er það viðurkennt sem meginregla að lög skuli ekki vera afturvirk. En er þetta alltaf svona í framkvæmd? Ég held því fram að svo hafi ekki verið gagnvart fyrirtæki okkar, Stakkavík ehf. í Grindavík. 
Hermann Ólafsson.jpg
Afturvirk lög
Tökum síðara atriðið fyrst. Fyrir nokkrum árum voru sett lög um að heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila mætti ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá mætti krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu. 
Þegar lögin voru sett var Stakkavík eina útgerðin í krókaaflamarkskerfinu sem var þá þegar yfir þessum mörkum. Því má segja að lögunum hafi fyrst og fremst verið beint gegn einu fyrirtæki. Lögin voru sem sagt afturvirk og hafa stjórnvöld gefið fyrirtækinu umþóttunartíma til þess að laga sig að þeim með því að selja frá sér aflaheimildir og skera sjálft sig niður við trog.
Þurfum að selja 900 þorskígildistonn
Stakkavík hefur á þessu fiskveiðiári yfir að ráða tæplega 3.000 þorskígildistonnum í krókaaflamarkskerfinu sem jafngildir 7,16% af heildinni. Til þess að fara niður undir lögbundið  5% þak þurfum við að losa okkur við tæplega 900 þorskígildistonn og megum ekki ráða  yfir nema 2.100 þorskígildistonnum. Í þorski þurfum við að minnka hlutdeild okkar úr 6,88% í 4% og í ýsu úr 8,11% í 5%. Engin önnur útgerð í krókaaflamarkskerfinu þarf að sæta slíkum afarkostum og það vegna afturvirkni laga en slík tilhögun þykir jafnan ekki boðleg í réttarríki.
Ekkert jafnræði er
milli útgerða í stóra
kerfinu og í litla
kerfinu þegar kemur
að hámarkskvótaeign
12% af heildaraflahlutdeild
Þá kem ég að hinu atriðinu sem ég nefndi í upphafi, það er að segja þeirri ófrávíkjanlegu meginreglu réttarríkisins að allir séu jafnir fyrir lögunum. Á vef Fiskistofu 12. september síðastliðinn má sjá lesa eftirfarandi klausu í frétt um aflahlutdeild stærstu útgerðanna:
„Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild einstaks eða tengdra aðila í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%. 
Sitja ekki við sama borð

Aðili í stóra kerfinu má sem sagt eiga 12% af samanlögðum heildarkvóta í litla kerfinu og stóra kerfinu. Þetta þýðir í raun að hann má eiga sem samsvarar 12% af aflaheimildum sem eru í stóra kerfinu og líka sem svarar 12% af heimildum í litla kerfinu. Aðili sem er aðeins í litla kerfinu getur hins vegar aldrei átt meira en sem samsvarar 5% af heildarkvótanum í litla kerfinu. Þessir aðila sitja þannig ekki við sama borð.
Því má svo bæta við að ef þau 4% af þorskkvóta sem Stakkavík má hafa mest í minna kerfinu miðuðust við heildarúthlutun allra veiðiheimilda, eins og gerist í stóra kerfinu, mætti kvótaeign fyrirtækisins í þorski vera að hámarki 6.880 tonn en ekki 1.200 tonn eins og nú er.
Gróf mismunun
Af framansögðu er ljóst að hér er um grófa mismunun að ræða sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Þótt allir eigi að vera  jafnir fyrir lögunum er staðreyndin sú að ekkert jafnræði er milli útgerða í stóra kerfinu og í litla kerfinu þegar kemur að lögum og reglum um hámarks kvótaeign. Og það er heldur ekki í anda réttarríkisins að setja lög sem eru afturvirk og bitna á einu fyrirtæki eins og hér hefur verið rakið.  
Höfundur er framkvæmdastjóri Stakkavíkur ehf. í Grindavík.