Engin línuívilnun í ýsu og löngu

Þann 1. febrúar sl. tilkynnti Fiskistofa að frá með 3. febrúar félli niður línuívilnun í ýsu og löngu.  LS setti sig samdægurs í samband við Matvælaráðuneytið, þar sem spurt var hvort einhver breyting yrði á þessum þætti milli ára.  Rifjað var upp hvernig brugðist var við á síðasta fiskveiðiári, þar sem afli var látinn flæða milli tímabila.  Stofnað var nýtt tímabil. Í stað þess að 3. tímabil hæfist 1. mars, hófst það 12. febrúar.  Með þeim hætti myndaðist ekki rof í ívilnun dagróðrabáta á línu.
Til að fylgja málinu eftir sendi LS Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra bréf þar sem fram kom ósk félagsins.  Jafnframt bent á að Fiskistofa hefði ekki brugðist við með þessum hætti á 1. tímabili þegar heimildir í ýsu voru uppurnar nokkru áður en tímabilinu lauk. 
„Efni:  Beiðni um breytingar á tímabilum línuívilnunar fyrir ýsu og löngu.
Línuívilnun er einn þeirra þátta í stjórnkerfi fiskveiða sem eflir atvinnu í hinum dreifðu byggðum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu leiða ákvæði reglugerða til þess að línívilnun fellur niður í ýsu og löngu frá og með morgundeginum 3. febrúar og það sem eftir er mánaðarins.  Tilkynningin kom flatt upp á LS þar sem búist var við að tekið yrði af næsta tímabili eins og gert var við ýsu í upphafi fiskveiðiárins 1.9. – 30.11.  

Stöðvun línuívilnunar veldur strax erfiðleikum hjá útgerðum dagróðrabáta og landverkafólki sem starfar við beitningu.  Hér er um hundruð starfa að ræða og því mikið í húfi fyrir starfsfólk þeirra 34 útgerða sem fengið hafa línuívilnun.  

Landssamband smábátaeigenda fer hér með þess á leit við yður að koma í veg fyrir stöðvun línuívilnunar með þeim hætti að tímabilum fyrir ýsu og löngu verði breytt þannig að við taki nýtt tímabil frá og með 3. febrúar til loka fiskveiðiársins.  
Svar ráðherra barst sl. föstudag 4. febrúar.  Það kom verulega á óvart, í raun svo mikið að vissara var að lesa bréfið tvisvar til að trúa því að erindinu hefði verið hafnað.
Screenshot 2022-02-07 at 20.51.15.png
Einhver misskilningur, getur ekki annað verið!
Á þeim grunni sendi LS nokkrum klukkustundum eftir að hafa móttekið synjun erindisins ítrekunar- og ítarlegra bréf til ráðherra. 

„Það eru Landssambandi smábátaeigenda (LS) mikil vonbrigði að þér hafið ekki orðið við beiðni félagsins um breytingar í tímabilum fyrir línuívilnun.  Þar sem málefnið er gríðarlega mikilvægt höfum við ákveðið að óska eftir því að þér endurskoðið ákvörðunina.  Til viðbótar áðurframkomnu skal eftirfarandi tiltekið til styrktar erindinu.

1. Afli til línuívilnunar í ýsu var skertur um 41% milli ára, úr 701 tonni í 413 tonn.  Miðað við lækkun á leyfilegum heildarafla í ýsu milli ára hefði línuívilnun í átt að vera 551 tonn.

2. Þar sem Fiskistofa framfylgdi ekki reglugerð um línuívilnun á 1. tímabili um að stöðva veiðar, gerðu aðilar ráð fyrir að það sama yrði upp á teningnum á 2. tímabili.  Ákvörðun Fiskistofu kom því flatt upp á félagsmenn.

3. LS var ekki að biðja um auknar veiðiheimildir í ýsu í bréfinu þann 2. febrúar, heldur aðeins að létt yrði undir með línuútgerð dagróðrabáta.

4. Það sem af er fiskveiðiári hefur nær vonlaust verið að fá leigða til sín ýsu.  Stórútgerðin gleypir allt sem á markaðinn kemur eða framkvæmir skipti sín á milli.

5. Krókaaflamarksbátar hafa undanfarin ár getað skipt á þorski og ýsu við aflamarksskip.  Þannig hafa þeir getað aukið ýsuafla að meðaltali um 2.000 tonn ár hvert, en aflahlutdeild þeirra í ýsu er 15%.  Nú ber hins vegar svo við að aðeins 415 tonn hafa fengist úr aflamarkskerfinu.   

6. Í krókaaflamarkskerfinu er búið að veiða 71% af samanlögðum úthlutuðum heimildum og því sem fært var frá fyrra ári.  Sambærileg staða aflamarksskipa er 46%.

7. Fordæmi eru fyrir að komið hefur til móts við sambærilega beiðni frá LS.  Á síðasta fiskveiðiári fólst breytingin í að 3. tímabil hófst 11. febrúar.


Af því sem hér hefur verið talið upp auk þess sem fram kom í bréfi LS þann 2. febrúar er ljóst að mikil vandræði steðja að útgerð dagróðrabáta sem háðir eru línuívilnun auk starfsfólks sem vinnur við beitningu.  

LS biðlar hér öðru sinni fyrir málefninu, ekki síst þar sem nauðsynlegt er að sem flestar upplýsingar komi fram.   
Svar við bréfinu hefur ekki borist. 
 
Línubali copy 2.jpg