Er íslenskur sjávarútvegur fastur í hlutverki hráefnisskaffara?

Á vef MATÍS er að finna mjög athyglisvert viðtal við Pál Gunnar Pálsson, undir fyrirsögninni „Af hverju er engin íslensk vara meðal þeirra bestu?.

Í viðtalinu kemur fram að í tengslum við hina árlegu sjávarútvegssýningu í Brussel eru veittar viðurkenningar fyrir nýjungar í margvíslegum vöruflokkum, en þar hefur það ekki enn borið til að hérlent fyrirtæki, staðsett á Íslandi hafi svo mikið sem verið tilnefnt til verðlauna á sviði nýsköpunar og vöruþróunar.
Þetta eru sláandi tíðindi, ekki síst í ljósi þess hversu gríðarlega mikilvægur sjávarútvegurinn er þjóðarbúinu í öllu tilliti. Þetta hlýtur að kalla á alvöru naflaskoðun innan greinarinnar – ekki síst í ljósi þess að það verður ekki af Íslendingum skafið að þeir hafa verið feiknarlega duglegir í að fræða umheiminn um eigið ágæti varðandi fiskveiðistjórnun og framleiðslu sjávarafurða. 
Í viðtalinu lýsir Páll Gunnar því hvernig íslenskur sjávarútvegur virðist að miklu leiti þjóna erlendum aðilum sem hráefnisskaffari, þar sem uppruni fisksins týnist á leiðinni til neytenda. 
Það hlýtur að vera allrar athygli vert fyrir smábátaeigendur og þá sem treysta á framboð fisks af smábátaflotanum, hvað Páll Gunnar segir:
„Að hafa aðgang að fersku hráefni ætti að geta skapað töluvert forskot á þá sem þurfa að reiða sig á fryst hráefni af misjöfnum gæðum, tenging við upprunann og þá jákvæðu þætti sem Ísland hefur uppá að bjóða ætti ekki heldur að skemma fyrir.
Félagsmenn, sem aðrir, eru hvattir til að lesa þetta viðtal, en það er undir slóðinni:  
http://www.matis.is/um-matis/frettir/nr/3791