Á fundi LS og sjávarútvegsráðherra var rætt um makrílveiðar. LS ítrekaði fyrri afstöðu sína um að ráðherra tryggði færabátum frelsi til veiða að 16% af leyfilegum heildarafla. Ennfremur skoraði LS á ráðherra að afnema nú þegar reglugerð um kvótasetningu færabáta sem sett var árið 2015. Hún hefði m.a. leitt til mikillar fækkunar smábáta á makrílveiðum. Árið 2014 var fjöldi þeirra 121 en 2017 lönduðu 54 færabátar makríl.
Athygli vöktu upplýsingar LS um makrílveiðar á síðasta ári. Þar kom fram að rúmur þriðjungur heildaraflans var veiddur utan íslenskrar lögsögu á alþjóðlegu hafsvæði NEAFC.
Tölur Fiskistofu sem stuðst er við tilgreina afla á hverju veiðisvæði og ná aftur til ársins 2014.
Á síðustu 4 árum (2014-2017) hefur heildarafli í makríl verið um 164 þús. tonn. Mestur hluti þess afla hefur veiðst hér við land. Síðasta ár sker sig því úr þegar 35% heildaraflans veiddist utan landhelginnar. Þegar þessar tölur eru skoðaðar er ástæða til að velta því fyrir sér hvort makríllinn sé að yfirgefa okkur. Hvort minnkandi afli við landið séu vísbendingar um breytt göngumynstur?
MAKRÍLL
Leyfilegur afli
Afli í lögsögu
Afli á NEAFC
Afli Alls
2014
154.100
157.490
3.314
160.804
2015
179.833
148.280
19.507
167.787
2016
167.767
152.849
11.403
164.252
2017
176.192
105.253
58.668
163.921
2014-2017
677.892
563.872
92.892
656.764
Með skírskotun í framangreint gerist sú spurning enn áleitnari, hvers vegna stjórnvöld ákváðu með reglugerð að hefta makrílveiðar færabáta. Þeirra veiðisvæði er við ströndina þ.s. stærri skipin hafa ekki heimild til að veiða, svæðin því að mestu ónýtt. Að mati LS voru það gríðarleg mistök að grípa inn í það ferli sem hafið var í makrílveiðum smábáta.