Er tékki á leiðinni?

Föstudaginn 29. janúar sl. kvað Hæstiréttur upp dóm í máli Halldórs fiskvinnslu ehf á Bakkafirði gegn íslenska ríkinu.  Málið snérist um að eigendur fiskvinnslunnar Áki H. Guðmundsson og Hilma Hrönn Njálsdóttir voru ósátt við að þurfa að greiða veiðigjald af afla sem fenginn var við grásleppuveiðar.  Óánægja þeirra laut að misræmi milli krókaaflamarks- og aflamarksbáta.  Bátar sem höfðu veiðileyfi í aflamarki var gert að greiða veiðigjald en útgerðum krókaaflamarksbáta ekki þar sem til þess skorti lagaheimild.
Skemmst er frá því að segja að Hæstiréttur féllst á rök Jóns Jónssonar hrl sem gætti hagsmuna fiskvinnslunnar að álagning veiðigjalda á aflamarksbáta bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  
Dómsorð Hæstaréttar voru eftirfarandi:
„Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfýjanda, Halldóri fiskvinnslu ehf., 871.718 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. – 24. október 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómurinn er fordæmisgefandi og geta því eigendur aflamarksbáta átt von á endurgreiðslu veiðigjalda sem þeir greiddu af afla á alls þremur grásleppuvertíðum.
Grásleppa.png