Fastur afsláttur lækkaður

Á aðalfundi LS 2013 varð töluverð umræða um veiðigjöld.  Fundarmenn voru ánægðir með þá lækkun sem gerð hafði verið á sérstaka veiðigjaldinu.  Aftur á móti gætti óánægju með að ekki væri komið nægjanlega til móts við minnstu útgerðirnar með því að hækka frítekjumark á sérstöku veiðigjaldi.  


Fundurinn samþykkti eftirfarandi um þennan þátt:

„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda krefst þess að fyrstu 100 þorskígildistonnin verði undanskili sérstöku veiðigjaldi og ½ gjald verði frá 100 að 200 tonnum.


Það er Landssambandi smábátaeigenda verulegt áhyggjuefni að ekki hafi verið tekið tillit til sjónarmiða félagsins við gerð frumvarps um veiðigjöld sem nú hefur verið dreift á Alþingi.  

Í frumvarpinu er boðað að fastur afsláttur lækki verulega.  Hann verði aðeins helmingur þess sem hann er í dag, fari úr 479.700 í 250.000.  

Ekki tekið tillit til kostnaðar við kvótaleigu

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gjaldstofnar reiknist af útgefnum aflaheimildum eða eftir atvikum lönduðum afla.  Veiðigjöld leggist þannig á hvert kíló afla úr sjó.  Fyrir hverja tegund er reiknaður afkomustuðull sem er hlutfall afkomu reiknaðrar framlegðar við veiðiúthald á hverjum nytjastofni.  Í kostnaðarliðum eru aflahlutir og launatengd gjöld, önnur laun, olía, veiðarfæri, viðhald skipa, frystikostnaður (umbúðir o.fl.), flutningskostnaður, tryggingar og löndunarkostnaður.


Þegar LS var kynnt þessi aðferð, gagnrýndi félagið að ekki væri tekið tillit til kostnaðar vegna kvótaleigu.  LS benti á að útgerðir krókaaflamarksbáta hefðu leigt ýsu úr aflamarkinu fyrir 700 milljónir, til þess eins að geta veitt þorsk.  Það væri því óhjákvæmilegt að taka tillit til þessa kostnaðar þegar afkomustuðull í ýsu og þorski væri reiknaður.  Við innleiðingu nýrrar aðferðar verði að skilgreina afkomustuðla hjá útgerðum krókaaflamarksbáta sérstaklega.  Við þessu hefur ekki verið orðið eins og sjá má á frumvarpinu. 


Í væntanlegri athugasemd LS til Atvinnuveganefndar Alþingis við frumvarpið mun félagið gera kröfu um lækkun á afkomustuðlum hjá útgerðum krókaaflamarksbáta þar sem tekið verði tillit til kostnaðar við kvótaleigu.  Það kæmi ekki á óvart að slíkt mat mundi sýna að ekki væri grundvöllur fyrir greiðslu veiðigjalds á ýsu.


Rétt er að vekja athygli á að hjá útgerðum sem nú eru með 30 tonn eða minna í þorski verður veiðigjald óbreytt.   Engin sanngirni er í slíku og því knýjandi að Atvinnuveganefnd geri breytingar á frumvarpinu þannig að almenn lækkun taki einnig til þeirra.

Gjöld lækka í þorski en hækka í ýsu og steinbít


Landssamband smábátaeigenda óttast að verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það hafa í för með sér fækkun smærri fyrirtækja.  Veiðiheimildir smábáta eru að 81 hundraðshlutum samsettar í þorski, ýsu og steinbít.  Meðfylgjandi línurit sýnir breytingu sem verður á veiðigjöldum í þessum tegundum miðað við það sem nú er greitt.  Eins og sjá má lækka veiðigjöld í þorski, en hækka fyrir ýsu og steinbít.  Sammerkt er ferlunum í grafinu að eftir því sem veiðiheimildir aukast, lækkar veiðigjald frá því sem nú er greitt.  Það er vegna breytinga á föstum afslætti, gjaldastuðlum og minni hlutdeildar sérstaks veiðigjalds.

Línurit – veiðigjöld.pdf