Fiskifræðingar gagnrýndir – hlusta ekki á sjómenn

Í Fiskifréttum 16. október sl. var greint frá skýrslu sem birt er í nýjasta tbl. tímarits um sjávarlíffræð sem Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) gefur út.  Þar kemur fram gagnrýni á fiskifræðinga og stjórnmálamenn að hlusta ekki á þann fróðleik sem sjómenn eru hlaðnir af varðandi ástand sjávar og einstakra fiskistofna.  
Það var dr. Edward Hind við NUI Galway háskólann á Írlandi sem skoðaði alls 500 vísindaskýrslur sem gefnar voru út á 100 ára tímibili.  Niðurstaða hans var sú að ef fiskifræðingar hefðu sýnt reynslu fiskimanna áhuga hefði verið unnt að draga úr eða koma í veg fyrir alræmd stóráföll á borði við hrun þorskstofnsins á einstökum hafsvæðum og eyðileggingu kóralsvæða.  Vísindamenn hefðu hins vegar kosið að fylgja sínum eigin vísindum sem ekki hefðu nægt til að koma í veg fyrir áföll.