Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um breytingu á reglugerð um þorskfisknet. Í reglugerðinni er m.a. afnumið ákvæði um 8 tommu hámarksmöskvastærð í þorskfisknetum.
Á sínum tíma var ákvæðið sett til að minnka sóknina í stærsta þorskinn þar sem rannsóknir sýndu að hrogn úr honum gæfu mestar lífslíkur seiða sem klektust úr þeim.
Ætla má að ákvörðun ráðuneytisins byggist á tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar sem álíti meðalaldur þorskstofnsins vera orðinn of hár. Því sé nauðsynlegt að grípa inn í og freista þess að veiða þá elstu þannig að stór hluti þeirra verði ekki ellikerlingu að bráð.
Bent skal á að veiðimynstur hefur breyst mikið á undanförnum árum og netaveiðar 2011 í sögulegu lágmarki, aðeins helmingur af meðaltali síðustu 30 ára, eins og kemur fram í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar (sjá mynd). Þá hefur eftirspurn eftir rígaþorski farið minnkandi og því óvíst um markað fyrir hann.