Fundur Landssambands smábátaeigenda og
Strandveiðifélags Íslands með
Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra
14. ágúst 2023 fór fram fundur með forsætisráherra sem LS hafði óskað eftir fyrir allnokkru.
Auk forsætisráðherra og fundarritara ráðuneytisins sátu fundinn Arthur Bogason og Magnús Jónsson f.h. Landssambands smábátaeigenda og Kjartan Sveinsson f.h. Strandveiðifélags Íslands.
Strandveiðarnar voru til umræðu. Auk fjölmargs annars var eftirfarandi rætt:
- Strandveiðikerfið er eini gluggi almennings að fiskveiðum hér við land. Það var sett á árið 2009 vegna þess að framkvæmd aflamarkskerfisins var talið fara gegn mannréttindum.
- Handfæraveiðar eru jafngamlar byggð á Íslandi og eru umhverfisvænstu veiðar sem stundaðar eru hérlendis. Hvorki hér né annars staðar í heiminum hafa slíkar veiðar ógnað fiskistofnum.
- Strandveiðar hafa sannað sig sem viðspyrna gegn þeirri hnignun sem margar sjávarbyggðir hafa mátt þola.
- Nú eru hins vegar blikur á lofti þar sem margar útgerðir á B- og C-svæðum hafa annaðhvort þegar flutt sig yfir á A-svæði eða eru að undirbúa það. Frumvarp matvælaráðherra leysir ekki þann vanda. Ágreiningur sá sem ríkt hefur milli svæða mun einungis flytjast inn á hvert svæði fyrir sig. Eina lausnin er að tryggja öllum sama dagafjölda, eins og stendur í núgildandi lögum.
- Strandveiðikerfið er sóknarmarkskerfi og þarf að vera að öllu leyti aðskilið frá aflamarkskerfinu. Til þess að það geti orðið þarf að vera sveigjanleiki í ráðgjöf Hafró og að breytilegur afli strandveiðanna sé ekki inni í 20% aflareglu.
Í greinargerð Jóhanns Sigurjónssonar fv. forstjóra Hafró frá því í okt. 2022 segir orðrétt: Við endurskoðun aflareglu fyrir þorsk hefur ítrekað fengist sama niðurstaða um að 20-22% veiðihlutfall sé skynsamlegt markmið og tryggi sjálfbærni veiðanna.20% talan er því ekki fræðilega heilög. Strandveiðiafli hefur að jafnaði verið innan við 1% af útreiknuðum veiðistofni þorsks.
- Þeirri hugmynd var varpað fram á fundinum að gera 3-5 ára tilraun með að leyfa 4 x 12 veiðidaga á strandveiðum (skv. lögum) án þess að setja upp fyrirfram niðurneglt heildaraflamark. Í lok tilraunatímabilsins yrði staðan metin, bæði fiskifræðilega og hver þróunin hafi orðið í fjölda strandveiðibáta. Það er einkenni og aðalsmerki framsækinna vísinda og vísindamanna að gera tilraunir, prófa og þróa nýjar hugmyndir, endurskoða og skoða niðurstöður í ljósi reynslunnar.
Forsætisráðherra sýndi málflutningi okkar skilning en lagði áherslu á að hún vildi sjá hvað kæmi út úr vinnu stóru nefndarinnar sem starfar undir heitinu „Auðlindin okkar”.
Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir sagði í lok fundar að þegar þær niðurstöður lægju fyrir væri hún fús að hitta okkur aftur að máli.