Gildi fari í samkeppni við Íbúðalánasjóð og banka

Á ársfundi Gildis-lífeyrissjóðs sl. miðvikudag 25. apríl vakti það undrun að skýrsla stjórnar fékkst ekki rædd fyrr en undir liðnum önnur mál.  
Fundurinn hófst á tilsettum tíma kl. 17.   Fundarstjóri óskaði eftir að liðir 3 til 7 í dagskránni yrðu teknir í samfellu, en að þeim loknum yrðu leyfðar umræður og fyrirspurnir um þá.  Ekki var gerð athugasemd við það. 
 

Screen Shot 2012-04-27 at 23.26.01.png

 

Það tók ábyrgðarmenn dagskrárliðanna 2 klst að gera grein fyrir þeim.  Fundarstjóra þótti eftir þá yfirferð við hæfi að gera 15 mínútna kaffihlé.  Að hléi loknu óskaði framkvæmdastjóri LS að taka til máls og greindi fundarstjóra frá því að hann hefði með sér minnislykil sem innihéldi glærur um málefnið og hugðist yfirfæra þær í tölvu fundarins.   Fundarstjóri ákvað hins vegar að meina honum það og sagðist einungis leyfa stuttar og hnitmiðaðar spurningar.  Framkvæmdastjóri LS lét í ljós óánægju sína yfir ofríki fundarstjóra og sagðist vilja ræða dagskrárliðina í heild.  Því hafnaði fundarstjóri og sagði þá umræðu fara fram undir liðnum önnur mál!  Því var mótmælt og sagði framkvæmdastjóri LS slæmt að málefni sem svo sannarlega ættu erindi til fundarmanna fengist ekki rædd fyrr en í lok fundar þegar líklegt væri að fjöldi fundarmanna hefði yfirgefið fundarsalinn.   Hann varð hins vegar að beygja sig undir ákvörðun fundarstjóra og hélt sig við spurningar sem lutu að ársreikningi og skýrsu stjórnar.  

Eitt af þeim málum sem Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS ræddi undir liðnum önnur mál, fyrir hálftómum sal, var að Gildi-lífeyrissjóður mundi koma á samkeppni á lánamarkaði til húsnæðiskaupa.   Sjóðurinn mundi hætta allri þátttöku í skuldabréfakaupum hjá Íbúðalánasjóði og bönkum, en þess í stað lána félagsmönnum sínum beint til húsnæðiskaupa.  Skyldu félagsmenn geta valið milli verðtryggðs láns eða láns með föstum eða breytilegum vöxtum eins bankarnir bjóða upp á.
Kafli í ræðu Arnar um þetta málefni var eftirfarandi:
VIII.   Að bæta hag sjóðfélaga
Aðeins rúm 4% af heildareignum Gildis eru lán til sjóðfélaga, sem mér finnst ótrúlega lágt.
Ég fagna því að eignastýring sjóðsins verði efld með fleiri starfsmönnum.  Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi að vel takist til við ávöxtun á eignum sjóðfélaga.  
Í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra kemur fram að: 
 „Markaður með skráð hlutabréf og skuldabréf fyrirtækja hefur byggst upp afar hægt þannig að mikilvægar fjárfestingar Gildis kölluðu á mikla vinnu við undirbúning, matsferli og ákvaðarðanatöku.
  
Hættum að bíða eftir því að gjaldeyrishöftum verði aflétt.  Þau eru ekki á förum næstu árin.  Höldum vörð um eignir okkar erlendis en nýtum krafta okkar frekar hér innanlands.  Hvar eru tækifærin?  Jú að mínu mati eru þau handan við hornið.
Ég legg til að stjórn sjóðsins láti nú þegar hefja vinnu við stofnun deildar sem hafi það að markmiði að lána sjóðfélögum til húsnæðiskaupa.  Sérfræðingar sjóðsins verði fengnir til að vinna þetta verk og koma með tillögur að framkvæmd.  
Ég er sannfærður um að það yrði félagsmönnum til hagsbóta að geta fengið lán sín beint frá sjóðnum í stað þess að fara millileið í að nálgast lán sem lífeyrissjóðurinn hefur að hluta til fjármagnað með þátttöku í skuldabréfaútboðum Íbúðalánasjóðs og skuldabréfakaupum sem viðskiptabankar gefa út.  Báðir aðilar nota síðan fjármunina m.a. til að lána sjóðfélögum til húsnæðiskaupa.
Þetta yrði tilraun til að bæta kjör sjóðfélaga
Með þeirri starfsemi sem hér er lögð til er verið að fara inn á þann markað sem þykir hvað öruggastur í ávöxtun, hægt yrði að velja milli verðtryggðra lána og lána með föstum eða breytilegum vöxtum eins og bankarnir bjóða upp á.
Með stofnun slíkrar deildar yrði samkeppni á íbúðalánamarkaðinum efld sem mundi skila sér til sjóðfélaga.
 
Ég sé það fyrir mér að hægt yrði að leita samstarfs um slíka starfsemi hjá örðum lífeyrissjóðum.  
Hér með boltanum kastað til stjórnar Gildis með þeim skilaboðum – hefjist strax handa.