Gildi stefnir út úr vogunarsjóðum

Á undanförnum árum hefur framkvæmdastjóri LS gagnrýnt að Gildi lífeyrissjóður skuli fjárfesta í vogunarsjóðum.  Í skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóðanna má segja að tekið hafi verið undir þessa gagnrýni.   Nefndin taldi það ekki samræmast lagaákvæðum um almenna varfærni lífeyrissjóða við fjárfestingar að kaupa verðbréf í vogunarsjóðum.    Gildi var hins vegar á öðru máli vitnaði til lögfræðiálits máli sínu til stuðnings um lögmæti þess.
Í fjárfestingarstefnu Gildis 2013 er lagt til að dregið verði úr vægi ríkisskuldabréfa, innlána, vogunarsjóða og erlendra fasteignasjóða.  
Samkvæmt töflu á bls 25 í ársskýrslunni er stefna sett á 0,0% eign í erlendum vogunarsjóðum 2013, þar sem vikmörk eru að hámarki 3,5%.
Fram kemur í ársskýrslu Gildis að 6,1 milljarður var ávaxtaður í vogunarsjóðum í lok árs 2012 sem jafngilti 2,1% af heildarverðbréfa- og innlánaeign sjóðsins.  Raunávöxtun í erlendum vogunarsjóðum var 1,7% á síðasta ári.