Grásleppa – ráðstefna á Patreksfirði

Miðvikudaginn 22. maí verður haldin ráðstefna á Patreksfirði um grásleppu. Matís, Oddi, Landsamband smábátaeiganda og AtVest standa fyrir fundi með hagsmunaaðilum í grásleppuveiðum og vinnslu í Sjóræningjahúsinu. Fundurinn hefst klukkan 13:00 og gert er ráð fyrir að honum ljúki kl. 17:00.
Á ráðstefnunni munu starfsmenn Odda og Matís fara yfir og kynna grásleppuverkefni sem unnin hafa verið síðustu árin. Frá og með árinu 2012 hafa veiðimenn verið skyldaðir til að koma með alla grásleppuna að landi en algengast hefur verið að öðru en hrognunum hafi verði hent úti á sjó. Þetta hefur breytt umhverfi grásleppuveiða og vinnslu mikið og fyrir tilstilli útflutningsfyrirtækisins Tritons fannst góður markaður fyrir grásleppuna í Kína. Sá markaður hefur skapað ný störf og verðmætasköpun, ekki síst á Vestfjörðum. Matís hefur m.a. greitt fyrir markaðssetningu afurða með útgáfu skýrslu með upplýsingum um næringar- og efnainnihald grásleppu.
Landssamband smábátaeiganda ræðir um markaðsmál á grásleppuhrognum en erfiðlega hefur gengið að selja afurðir frá síðustu vertíð. Hrognin eru seld inn á þröngan syllumarkað sem er næmur fyrir sveiflum í framboði og því ríkir oft óvissa á verðum, sem tengist gangi veiða á Íslandi, Nýfundnalandi og Grænlandi. Mikilvægt er að finna nýja markaði fyrir grásleppuhrogn til að draga úr verðsveiflum og takmarka markaðsáhættu. 
Jacob Matthew Kasper, starfsmaður Hafrannsóknastofnunarinnar, mun fara yfir stofnmælingar grásleppu ásamt því að upplýsa um útlit og horfur fyrir næstu vertíð. Gert er ráð fyrir að fundarmenn fái tækifæri til að spyrja sérfræðing Hafró um aðferðafræði og niðurstöður rannsókna á grásleppustofninum.
Allir sem áhuga hafa á málefnum grásleppuveiða og vinnslu eru velkomnir á ráðstefnuna. Hér er um mikilvægt hagsmunamál Vestfirðinga að ræða þar sem grásleppuveiðar og vinnsla eru mikilvæg í atvinnulífi fjórðungsins.
Ráðstefnuhaldarar hafa fengið bæjarstjóra Vesturbyggðar, Ásthildi Sturludóttur og sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps, Indriða Indriðason til að stjórna fundinum.