Grásleppuveiðar 2019 – byggt á óbreyttu veiðifyrirkomulagi

Nokkurrar óþreyju hefur gætt hjá grásleppukörlum varðandi veiðifyrirkomulag á vertíðinni 2019.  Hvort áfram verði byggt á því veiðifyrirkomulagi sem verið hefur eða veiðum stjórnað með kvótum.
Samkvæmt upplýsingum úr Sjávarútvegsráðuneytinu verður veiðifyrirkomulag á vertíðinni 2019 með sama hætti og verið hefur.  Gefnir verða út veiðidagar til bráðbirgða nokkru áður en vertíð hefst og endanlegur fjöldi í byrjun apríl.  
Ráðuneytið vill taka það skýrt fram að ráðherra hefur enn til umhugsunar að leggja til breytingar á stjórnun grásleppuveiða, en verði það niðurstaða hans að leggja til kvótasetningu þá verði 2019 ekki viðmiðunarár til aflareynslu á úthlutuðu aflamarki.   
  
LS hefur lagt áherslu á að gerðar verði tvær breytingar á reglugerð um hrognkelsaveiðar samkvæmt samþykktum aðalfundar 2018.  Annars vegar að heimilt verði að sameina leyfi og hins vegar að gera hlé á veiðum með því að taka upp netin og veiðidagar telji ekki á meðan.
LS vinnur enn að kröfu sinni um að endanlegur fjöldi veiðidaga verði ákveðinn að minnsta kosti einum mánuði áður en vertíð hefst.  
16252088_1215556698531262_7452736848909600363_o2 copy 3.jpg