Fiskistofa hefur sent frá sér yfirlit um veiðar á grásleppu. Þar kemur fram að veiðin í ár er nokkuð undir meðallagi og langt frá því sem vertíðirnar 2015 og 2016 skiluðu.
Tíu bátar hafa veitt yfir 30 tonn og eru Finni NS og Glettingur NS þar aflahæstir. Athyglisvert er að sjá hversu miklar sveiflur eru milli svæða frá ári til árs. Nú eru bátar sem veiða á svæði F sunnan Langanes í tveimur efstu sætunum, en þar var veiði mjög léleg í fyrra sem sést best á að sömu bátar voru þá neðarlega á sambærilegum aflalista. Á vertíðinni 2015 var þetta svo sambærilegt og nú, nema þá var aflinn helmingi meiri.