Greiðslumiðlun verði framhaldið

Aðalfundur Sæljóns – félags smábátaeigenda á Akranesi – var haldinn 1. október sl.  Að loknum orðum fráfarandi formanns félagsins Guðmundar Elíassonar hófust umræður um grásleppumál.  Greinilegur þungi var í umræðunni sem beindist að æðarbændum.  Töldu grásleppusjómenn æðarbændur hafa farið offari í staðhæfingum um netalagnir á vertíðinni.  Heiðursmannasamkomulag hafi verið gert milli Æðarræktarfélags Íslands og Landssambands smábátaeigenda fyrir nokkrum árum, þar sem tilmælum var beint til grásleppusjómenn að leggja ekki net innan ákveðinnar línu meðan varp færi fram.  
Fundarmenn gagnrýndu æðarbændur harðlega um að hafa krafist þess að tilmælin væru færð í reglugerð.  Málflutningur þeirra hafi einkennst af frekju sem Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði átt að sjá sóma sinn í að taka ekki mark á.
Fundurinn samþykkti hörð mótmæli við lokun veiðisvæða í Faxaflóa.
Greiðslumiðlun smábáta
Lög um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun voru mikið rædd á aðalfundi Sæljóns.  Fundarmenn töldu það hið mesta óráð að fella lögin úr gildi og hverfa þar með frá fyrirkomulagi sem reynst hefur í alla staði vel.  Breytingin mundi hafa í för með sér erfiðleika fyrir smábátaeigendur varðandi tryggingar og lífeyrismál.   
Samþykkt var að skora á stjórnvöld að fresta framkvæmd laganna, en að óbreyttu koma þau til framkvæmda 1. janúar nk.   

Tillögur Sæljóns til aðalfundar LS.pdf