Landssamband smábátaeigenda fundaði fyrr í dag með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Á fundinum fylgdi LS eftir erindi sínu um framhald makrílveiða smábáta þar sem óskað var eftir auknum veiðiheimildum til að koma í veg fyrir stöðvun veiða.
Þrátt fyrir góð rök sem LS hafði fram að færa kvaðst ráðherra ekki ætla að bæta við veiðiheimildir smábáta.
Stjórnartíðindi hafa nú birt auglýsingu frá Fiskistofu um stöðvun makrílveiða smábáta. Þar segir að frá og með 5. september 2014 eru makrílveiðar með línu og handfærum bannaðar.
Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir makrílveiðimenn og hundruðir aðila sem haft hafa atvinnu við umsetningu hans. Flestir áttu von á að ráðherra mundi taka vel í erindi LS, ekki síst vegna þeirra góðu tíðinda frá Hafrannsóknastofnun um að mælingar sýni að í íslenskri lögsögu hafi aldrei verið jafn mikill makríll.
Auglýsing Fiskistofu?
Landssamband smábátaeigenda gerði nú síðdegis athugasemd við auglýsingu Fiskistofu. Í bréfi sem LS sendi sjávarútvegsráðuneytinu er farið fram á að auglýsingin verði dregin til baka þar sem ekki hefur tekist að veiða þau 1.200 tonn sem tilheyra veiðitímabilinu 1. september – 31. desember. Bent er á að heimild Fiskistofu um stöðvun veiða er bundin við heildarafla hvers tímabils, en ekki heildaraflaviðmiðun.