Heimsveiði á grásleppu undir meðallagi

Árlegur upplýsingafundur um grásleppumál – LUROMA – var haldinn í Kaupmannahöfn föstudaginn 5. febrúar sl.   Fundurinn var sá 28. í röðinni, en hann hefur verið haldinn árlega frá 1989. 
Landssamband smábátaeigenda hefur frá upphafi séð um skipulagningu og boðun þessara funda.  Alls voru þátttakendur á fundinum 34, en aðeins einu sinni áður hafa fleiri setið fundinn.   Fundarmenn komu frá 10 löndum.
Luroma label.png
Meðal þess sem kom fram á LUROMA 2016 var að heimsveiði á grásleppu í fyrra var nokkuð undir 10 ára meðaltali, sú þriðja minnsta á tímabilinu. 
Ísland með 57%
Ísland og Grænland eru leiðandi í veiðum á grásleppu og hafa verið það undanfarin 9 ár, eða frá því veiðar á Nýfundanlandi dróust verulega saman.  Veiði hér á landi skilaði hrognum í rúmar 12 þús. tunnur og á Grænlandi samsvaraði veiðin um 7.400 tunnum.  Alls var afli þessara tveggja þjóða 92% af heildarveiðinni.  
Grásleppunefnd fundar
Grásleppunefnd LS mun funda á morgun þriðjudaginn 9. febrúar, þar sem formaður og framkvæmdastjóri munu greina nefndinni frá Luroma 2016.  Í framhaldi af skýrslum þeirra mun nefndin reyna að leggja mat á horfur á næstu vertíð hvað varðar veiðimagn, markað fyrir grásleppu og grásleppuhrogn, ásamt veiðitíma.