Mikill þrýstingur hefur myndast á sjávarútvegsráðherra um að auka veiðiheimildir á svæði D um 200 tonn. Krafan er afar sanngjörn, leiðrétting á ákvörðun sem tekin var útfrá ákveðnum forsendum sem gengu ekki eftir. Auk þess er ekki inni í kröfunni hlutdeild svæðisins í þeim 400 tonnum sem strandveiðiheimildir voru auknar um á yfirstandandi vertíð.
Flest svæðisfélög LS hafa ályktað um málefnið og nú eru sveitarfélög einnig að bætast í þann hóp. Opið bréf og áskoranir hafa verið sendar til þingmanna Suðurkjördæmis og ráðherra. Þá hefur stjórn LS ályktað um málefnið og sent frá sér áskoranir til sjávarútvegsráðherra sem fylgt hefur verið eftir á fundum með ráðherra.
Til viðbótar framangreindu:
Auk þessa hafa verið ritaðar greinar í blöð og rætt við fjölmiðla og aðila sem tengjast strandveiðum.
Ríkisútvarpið fjallaði sérstaklega um málið nú um helgina í tveimur fréttum. Ræddi við Vigfús Þ. Ásbjörnsson strandveiðimann á Höfn og Örn Pálsson framkvæmdastjóra LS.
Fundað með ráðherra
Á fundi LS með Gunnari Braga Sveinssyni sjávarútvegsráðherra um strandveiðar nú síðast sl. fimmtudag ítrekaði ráðherra skilning sinn á málefninu. Vissulega hefði gangur veiðanna ekki orðið eins og hann hefði gert ráð fyrir þegar hann hefði ákveðið að skerða veiðiheimildir svæðis D um 200 tonn.
LS ítrekaði kröfur sínar í málinu. Brýnt væri að gera strandveiðar að atvinnugrein sem smábátaeigendur um land allt gætu stólað á. Auka þyrfti veiðiheimildir úr níu í ellefu þúsund tonn þannig að tryggt væri að ekki komi til stöðvunar veiða í upphafi eða miðjum mánuði. Ekki væri verið að fara fram á neinar breytingar á kerfinu sjálfu.
Smábátaeigendur allir sem einn verða nú að herða róðurinn um þessa kröfu LS og fá hana viðurkennda í lögum um stjórn fiskveiða. Nú er greinilegur meðbyr með henni og sameinaðir geta smábátaeigendur alltaf náð markmiðum sínum.
Myndin er af strandveiðimönnum í Hrollaugi sem Vigfúst Þ. Ásbjörnsson tók og sýnir vel samstöðu þeirra um að ráðherra leiðrétti aflaviðmiðun á svæði D með því að bæta við 200 tonnum sem hann með reglugerð skerti svæðið um við upphaf strandveiða í apríl sl.