Hrafn Sævaldsson nýr formaður Farsæls – félags smábátaeigenda í Vestmannaeyjum

Aðalfundur Farsæls – félags smábátaeigenda í Vestmannaeyjum var haldinn 26. september sl.  
Í upphafi fundar minntust menn kærs félaga Bergvins Oddssonar, sem lést þann 22. september sl.  Beddi á Glófaxa eins og hann var ætíð kallaður var félagi í Farsæli og var að leggja lokahönd á nýjan 12 tonna bát Glófaxa VE 300.
42629477_254799938556162_7852622894940028928_n (2).png
Jóel Andersen, sem verið hefur formaður Farsæls í tuttugu ár, tilkynnti að hann óskaði ekki eftir endurkjöri.  Hrafn Sævaldsson var kjörinn formaður með lófataki.  Hrafn þakkaði Jóel fyrir mikið og gott starf í þágu trillukarla í Vestmannaeyjum.  Hægt og 
bítandi hefur fjölgað í félaginu á undangengnum árum og félagið því verið að styrkjast.
Strandveiðar voru mest til umræðu á fundinum, enda flestir félagsmenn sem stunda þær.  Smábátasjómenn lýstu óánægju sinni með skerðingu réttinda sem orðið hefðu á milli áranna 2018 og 2017, en þá fækkaði leyfilegum veiðidögum um 20, úr 68 dögum árið 2017 niður í 48 daga árið 2018.  Bátar í Eyjum þurftu að stoppa veiðar áður en almanaksmánuði var lokið á veiðitímabilinu og því er um afturför að ræða fyrir smábátasjómenn á svæði D að þessu leyti.  
Félagsmenn Farsæls hafa lagt áherslu á að strandveiðar fái að hefjast fyrr enda er fiskgengd við Eyjar hvað mest í apríl.  Ýmislegt gott hefur áunnist en stöðugt þarf að vinna í því að fjölga strandveiðidögum og lengja þarf tímabilið.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS kom á fundinn og ræddi starf félagsins og svaraði spurningum félagsmanna.      
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                       
Stjórn Farsæls: 
Hrafn Sævaldsson, formaður og gjaldkeri,  
Jóel Andersen, ritari. 
Aðrir stjórnarmenn eru: 
Halldór Alfreðsson, 
Kjartan Már Ívarsson,  
Vigfús Guðlaugsson.