Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar sem kynnt var í gær kemur það á óvart hversu mikið viðmiðunar- og hrygningarstofn minnka milli ára.
Hrygningarstofn þorsks
Það er rétt sem fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar að hrygningarstofn þorsks hafi ekki verið stærri í 40 ár. Hins vegar er það ekki tekið fram að hann er nú umtalsvert lægri en í fyrra, var þá 547 þúsund tonn en er nú 469 þúsund tonn. Lækkunin er 14,3%.
Þá vekur það ekki síður undrun að fyrir ári sagði stofnunin að hrygningarstofninn færi stækkandi, yrði 660 þús. tonn 2016, en mælist nú eins og áður sagði 469 þús. tonn. Lækkun um 29%.
Hér er munurinn það mikill að nauðsynlegt er að stofnunin gefi ítarlegar skýringar á því hver sé orsakavaldurinn.
Veiðistofn þorsks
Í júní 2015 greindi Hafrannsóknastofnun frá því að hún gerði ráð fyrir að veiðistofn þorsks mundi stækka milli ára um rúm 5%. Sjómönnum kom þetta ekki á óvart, óvenju góð veiði og mikið af þorski. Það sem af er fiskveiðári hafa sjómenn svo upplifað mun meiri aukningu. Nefndar hafa verið tölur allt upp í 14%. Það gætti því bjartsýni á góða viðbót í veiðiheimildum fyrir næsta fiskveiðiár.
Mælingar Hafrannsóknastofnunar nú ári síðar eru hins vegar ekki á þessu róli. Í skýrslunni er sagt að stofninn mælist minni en gert var ráð fyrir í fyrra. Munar það heilum 9%, úr 1371 þús. tonn niður í 1243 þús. tonn. Á næsta ári verði hann svo orðinn enn lægri eða 1191 þús. tonn.
Helsta skýring framanritaðs er að finna í eftirfarandi á bls. 31 í skýrslunni:
„Meðalþyngd eftir aldri í afla hefur aukist undanfarin ár og var árið 2015 nálægt langtímameðaltali (1955-2015). Þyngdir 3-9 ára í stofnmælingum árið 2016, sem eru notaðar til að spá um þyngdir í viðmiðunarstofni árið 2016 eru nokkuð lægri en verið hefur síðustu árin.
Spurningar til Hafrannsóknastofnunar:
1. Hvaða ástæður telur stofnunin vera fyrir því að 3 – 9 ára þorskar mælast léttari en gertvar ráð fyrir?2. Hefur Hafrannsóknastofnun í hyggju að bregðast við með einhverjum hætti til að aukaæti þorsksins, t.d. með því að draga stórlega úr veiðum á loðnu?3. Hvað hefði veiðistofn þorsks verið stór ef eingöngu væri tekið mið af meðalþyngd íafla hvers árgangs en ekki af þyngd 3 – 9 ára í stofnmælingu (togararalli)?
Ástæður fyrir þessum skrifum er að vekja fólk til umhugsunar –
- 20 þúsund tonn af þorski upp úr sjó eru nálægt 12 milljörðum í útflutningsverðmæti
- aðeins vantar 1.600 tonn inn í strandveiðikerfið svo ekki komi til stöðvunar í miðjum mánuði.
Ábyrgð ráðherra er því mikil þegar hann gefur út hversu mikið megi veiða hverju sinni.
Ákvörðunin nú er sérstaklega vandasöm þar sem mikið ber á milli sjónarmiða sjómanna og Hafrannsóknastofnunar hversu mikið eigi að veiða af þorski á næsta ári.