Á aðalfundi Farsæls í Vestmannaeyjum voru makrílveiðar smábáta ræddar. Fundarmenn voru sammála að inngrip í veiðarnar með kvótasetningu hefði verið röng ákvörðun. Farsælla hefði verið að gefa fleirum tækifæri til veiða. Framþróunin væri mikið háð því hversu margir væru á veiðum með tilliti til útbreiðslu og uppgötvun nýrra veiðisvæða.
Félagsmenn í Farsæli verða enn varir við makríl. Að þessu sinni eru það ekki bátar sem útbúnir eru til makrílveiða, heldur Kjartan Már Ívarsson sem er eigandi Þyts VE 25. Hann er þessa dagana að róa í ufsa og hefur gengið þokkalega.
Við rannsóknir á hvað ufsinn væri að éta tók hann eftir að gjörbreyting hafði orðið á milli ára. Í fyrra var stærðin á makrílnum þannig að útilokað væri að hann hefði klakist út hér við land, en nú væri hann mun smærri, eins og smá loðna. Kjartan sagði það sitt mat að þessi makríll hefði klakist út hér við land. „Ég dreg þá ályktun að makríllinn sé byrjaður að hrygna hér við land. Við þurfum því ekki að bíða og vona hvort hann komi næstu árin, heldur hefur hann tekið sér bólfestu hér, sagði Kjartan Már.
Aðalfundur Farsæls fór að venju vel fram undir styrkri stjórnun formannsins Jóels Andersen, ásamt honum eru í stjórninni:
• Georg Eiður Arnarson
• Haraldur Hannesson
• Kjartan Már Ívarsson