Hvað varð um samráðið?

„Ný vinnubrögð á Alþingi 
Hvað varð um samráðið?
er yfirskrift skoðunargreinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 12. júní sl.

Undrun sætir  að viðamiklar
breytingar, sem gerðar eru
á lögum um stjórn fiskveiða,
skuli teknar út úr ferli heildar-
endurskoðunar sem sjávar-
útvegsráðherra vinnur að.

Hinn 16. maí sl. var 143. löggjafarþingi Íslendinga slitið.  Eins og venja er við þinglok voru gerðar margvíslegar breytingar á lögum.  Meðal þeirra voru breytingar á lögum um veiðigjöld, stjórn fiskveiða og veiðar í efnahagslögu Íslands.  Frumvarp lá til grundvallar breytingum á veiðigjöldum og stjórn fiskveiða, en ekki á lögum um veiðar í efnahagslögsögu Íslands.  Þar hafði ekki orðið vart við neina umræðu um að áformaðar væru breytingar.
Nýr tónn
Eins og fram hefur komið er hér kveðið við nýjan tón varðandi meðferð mála á Alþingi.  Unnið er að breytingum inni í nefnd (atvinnuveganefnd) í lokuðu ferli án alls samráðs.  
Undrun sætir að viðamiklar breytingar sem gerðar eru á lögum um stjórn fiskveiða skuli teknar út úr ferli heildarendurskoðunar sem sjávarútvegsráðherra vinnur að. Miðað við framsögu hans þegar hann mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingar á veiðigjöldum virtist hann ekki hafa hugmynd um áform atvinnuveganefndar. Þar greindi hann frá því að hann harmaði að ekki hefði tekist að ljúka vinnu við heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Hann sagði að frumvarp þess efnis yrði því ekki lagt fram á þessu þingi eins og áformað hefði verið. Þá boðaði hann að ráðist yrði í opið samráðsferli um frumvarpið innan 2 – 3 mánaða.  
ÖP á heimasíðu A.jpg

„Opið samráðsferli
Það þarf því engan að undra að inngrip atvinnuveganefndar í það ferli sem sjávarútvegsráðherra vinnur að hafi komið á óvart.  Kannski var það engin tilviljun hvernig ráðherra komst að orði í þinginu, þar sem hann boðar opið samráðsferli.  Til þessa hefur ferlið nefnilega verið lokað samráðsferli – með öðrum orðum ekkert samráð verið haft við hagsmunaaðila. Hvert sé millistig þessarar vinsælu orðnotkunar við breytingar á lögum – samráð – er mér hulið.
Það er áríðandi að sjávarútvegsráðherra upplýsi strax hvaða atriði hann hyggst endurskoða.  Hvort nýtt frumvarp fjalli eingöngu um samningaleiðina eða verður um heildstæða endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða að ræða, þar með taldar breytingar sem atvinnuveganefnd Alþingis ákvað að þyldu enga bið.  
Skoðum nánar þrjú þessara atriða. Málefni sem nefndin ákvað að keyra án samráðs og umræðu gegnum Alþingi, beita óhefðbundnum aðferðum til að breyta strax.  
Síld

Síldveiðar smábáta við Breiðafjörð hafa fest sig varanlega í sessi.  Byggst hefur upp vinnsla sem sérhæfir sig í móttöku og sölu á síld frá smábátum.  Alls hafa um 30 bátar tekið þátt í veiðunum sem framkallað hafa um 40 störf í landi.  Þau 80 störf sem þarna hafa orðið til eru gríðarleg lyftistöng fyrir norðanvert Snæfellsnes. Veiðarnar eru stundaðar síðla hausts fram til áramót.
Atvinnuveganefnd Alþingis taldi inngrip nauðsynlegt, að takmarka yrði þessar veiðar við sem svarar einum farmi úr Álsey VE svo dæmi sé tekið.  Auk þessa ákvað nefndin að hækka leiguverð um 23%, sem er algjörlega úr takt við þróun á mörkuðum sem senda skilaboð um lækkun.
Skötuselur

Fyrir nokkrum árum hélt innreið sína á Íslandsmið gríðarlegt magn skötusels.  Flestir sjómenn vildu bregðast við með frjálsum veiðum á kvikindinu enda var hann hér í gríðarlegu magni.  Kvótasetning kom í veg fyrir það og koma hans á veiðislóðir þar sem engin hafði verið aflareynslan kallaði á gríðarlega eftirspurn eftir leigukvóta. Úr varð að taka framhjá hlutdeild og leigja á föstu verði frá Fiskistofu. Í ár eru um 1.200 tonn af skötusel leigð á þennan hátt og greiða útgerðir 176 kr fyrir hvert kíló.  
Atvinnuveganefnd ákvað að afnema yrði þetta ákvæði.
Strandveiðar og línuívilnun

Hámark þess sem fer í strandveiðar, línuívilnun, byggðakvóta og til áframeldis hefur nú verið lögfest við 5,3% heildarafla. Auk þessa taldi nefndin mjög áríðandi að senda þau skilaboð til þeirra sem stunda strandveiðar og línuívilnun að fullkomin óvissa ætti ríkja um framtíð þeirra frá og með 1. september 2015.  Ákvörðun nefndarinnar að afnema lágmarkstonnatölu til þessara veiða er í raun hreinn og klár fjandskapur. Að ætla hundruðum útgerða að lifa við árlega óvissu um hvort hægt verði að gera út er það lengsta sem hægt er að ganga án samráðs við þá sem hafa atvinnu af strandveiðum og línuívilnun.
Skilaboð mín til ráðherra eru þau að við heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem nú eru í farvatninu skuli fjallað að fullri alvöru um framangreindar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.   
 Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.