Þann 6. apríl sl. undirritaði sjávarútvegsráðherra reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2016. Samkvæmt ákvæði hennar verður leyfilegur heildarafli 147.824 tonn, þar með talin 20 þúsund tonn á samningssvæði NEAFC, utan lögsögu ríkja. Alls 6.160 tonn koma í hlut smábáta (4,2%) auk þess verður þeim gefinn kostur á að leigja frá Fiskistofu fyrir 8 kr/kg úr potti sem telur 2.000 tonn.
Nýmæli er í reglugerðinni að kveðið er á um að auk fyrrgreindra veiðiheimilda verður heimilt að veiða 3.825 tonn sem smábátar veiddu ekki á sl. ári. Búast hefði því mátt við að bætt væri við veiðiheimildir smábáta, nei það er nú öðru nær. Því skal skipt hlutfallslega milli allra útgerðarflokka. M.ö.o. smábátar fá aðeins 160 tonn af þeim veiðiheimildum sem þeim hafði verið úthlutað, afgangurinn fer til stærri skipa.
Með þessari ákvörðun verður ekki annað séð en ráðuneytið hafi ákveðið að fella burt rétt smábáta til að geyma 30% af úthlutuðum heimildum ársins 2015 til veiða á komandi vertíð sbr. reglugerð 740/2015 með skírskotun í reglugerð 532/2015.
Það er óbreytt frá í fyrra að veiðiheimildum til smábáta verður úthlutað samkvæmt veiðireynslu þeirra árin 2009 – 2012 sem hefur 43% vægi og áranna 2013 og 2014.
Hér að neðan má sjá umfjöllun Fiskifrétta um málefnið.