Hvers vegna þarf að laga það sem reynst hefur vel?

Róma ég gæði rauðmagans

Í ræðu söng og letri

En fólki þykir frúin hans

Flestum réttum betri

Svo var ort um hrognkelsið sem fyrr á öldum var ekki bara ljúfur vorboði eins og hin síðari ár, heldur bókstaflega landþráður lífgjafi, því það kom iðulega fyrir þegar illa voraði með jarðbönnum og hafþökum að hrognkelsið hélt lífinu í Íslendingum.

Ekki er þó að sjá að þessi ótútlegi fiskur hafi alla tíð verið hátt skrifaður, því meðal fyrstu heimilda sem um hann má finna er hrognkelsið litið hornauga svo um munar:  sá sem slysaðist til að fá hrognkelsi á öngul var feigur og óheppilegar þunganir vor jafnvel raktar til þess að viðkomandi hafði étið rauðmagarægsni.

Sjálfsagt á útlit hrognkelsisins sinn þátt í þeirri dulúð sem yfir því hvíldi.  Ósjálfrátt kemur flestum í hug að það sé afkomandi fornsögulegra fiska, jafnvel skrímsla, fiskur sem hafi synt innan um löngu útdauð furðuverk sem aðeins finnast steinrunnin í dag.

Hrognin voru sannarlega nýtt til forna, til framleiðslu á allskyns matvörum, en oftast var það þó fiskurinn sjálfur sem í voru mest verðmætin. Í dag eru hrognin það sem lagst er eftir, en góðu heilli er skrokkur grásleppunnar orðin söluvara á nýjan leik.

Annar fiskur, sem til skamms tíma hefur einnig verið nýttur vegna hrognanna, styrjan, er einn af þessum fornsögulegu fiskum sem lifði þó allar hremmingar sögunnar af. Það er ekki laust við að ákveðinn skyldleiki sé með hrognkelsinu og styrjunni í útliti.

Alltént er nokkuð ljóst, að ef grásleppan yrði sett í plankastrekkjara og teygt hraustlega á, myndi hún ekki vera mjög ósvipuð styrjunni og ef styrjunni yrði stillt upp við stórar hlöðudyr og skellt á trýnið á henni, yrði úr, kannski ekki fullkomið hrognkelsi, en eitthvað í áttina.

Við sem lifum og hrærumst í nútímanum gerum stundum minna úr því hvað gert var til forna, en því sem við sjálf aðhöfumst.  Þannig er það viðtekinn „sannleikur að raunvörulegar atvinnuveiðar hafi ekki byrjað á grásleppu fyrr en um árið 1964.

Hið rétta er að þá hófst skipulögð og allstíf sókn í þá gráu til útflutnings á hrognunum.  Veiðunum hefur og verið stjórnað, nokkurnvegin frá sama tíma með sóknartakmörkunum, þ.e. fjölda neta og möskvastærð, stærð báta og veiðisvæðum.  Aðeins einu sinni hefur kvótasetning verið rædd af fullri alvöru, en henni var þá hafnað af grásleppuveiðimönnum með yfirgnæfandi meirihluta.

Eins og í öllum heilbrigðum veiðiskap hefur stundum verið landburður, stöku sinnum sviðin jörð en oftast hefur veiðin verið einhversstaðar þar á milli.

Helsta skýringin á þessu er vafalaust að finna í náttúrulegum sveiflum, en við mennirnir erum duglegir við að leita að ástæðum til að kenna okkur sjálfum um.  Ofveiði og ill umgengni eru vinsæl umræðuefni þegar lítið veiðist, en sú umræða þagnar snarlega þá gott er til fanga.

Þrátt fyrir að grásleppan sé mjög mikilvæg tekjulind fyrir smábátaflotann hefur hún aldrei náð máli sem „mikilvægur fiskistofn fyrir efnahag þjóðarinnar.

Þetta endurspeglast m.a. í þeim áherslum sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt á þekkingaröflun um fiskistofnana við landið. Markvissar rannsóknir á hrognkelsinu hafa verið í algeru lágmarki og nánast legið niðri til langs tíma. Ástandið er jafnvel enn verra í öðrum löndum sem stunda grásleppuveiðar.

Árið 1989 var brotið blað í samvinnu þessara þjóða, þ.e. auk Íslands, Kanada (Nýfundnaland), Grænland og Noregur. Það ár var fyrsti LUROMA fundurinn haldinn en skammstöfunin stendur fyrir Lump fish Roe Matters, málefni er varða grásleppuhrogn. Fundinn sækja aðilar úr hinum ýmsu greinum, jafnt framleiðendur grásleppukavíars sem framleiðendur á söltuðum hrognum, söluaðilar o.s.frv.

Síðan þá hefur LUROMA fundurinn verið haldinn árlega og 24. fundurinn var haldinn í Reykjavík í byrjun febrúar á þessu ári.  Aðilar frá allt að 11 löndum hafa sótt fundinn og þátttaka verið upp í 40 manns.  LS hefur skipulagt og stýrt þessum fundum frá upphafi.

Í gegnum árin hefur LUROMA fundurinn ítrekað skorað á stjórnvöld í framangreindu löndunum að hrinda í framkvæmd stórauknum rannsóknum á grásleppustofnunum. Áhyggjur manna hafa ekki síst verið þær, að sú litla vitneskja sem fyrir hendi er gæti komið þessari atvinnugrein í koll síðar meir. Aðalfundir LS hafa og ályktað með sambærilegum hætti.

Þessar áhyggjur hafa nú ræst bókstaflega. Innkaupastjórar sölukeðjanna gera nú síauknar kröfur um sannanir þess að grásleppustofnarnir séu „sjálfbærir.  Umhverfissamtök renna á lyktina og gefa sér það að litlar upplýsingar séu merki þess að stofnarnir séu á heljarþröm.  Nú þegar hefur þeim tekist að koma hrognkelsinu á válista í Svíþjóð og Sviss og þessi samtök munu ekki láta þar við sitja. Á sama tíma halda þau því fram að þau séu „sérstakir vinir smábátasjómanna.
 
hrognfull er rétta orðið.jpg

Hrognafull er rétta orðið.

Í febrúar 2010 réð Hafró til sín starfsmann sem eingöngu sinnir rannsóknum á hrognkelsi.  Hann heitir Jacob Kasper og kemur frá Bandaríkjunum.  Jacob er staðsettur hjá Biopol, sjávarlíftæknisetrinu á Skagaströnd.  Hann hefur m.a. tekið þátt í merkingarverkefninu á hrognkelsi sem Biopol hefur haft forystu um síðan 2008, í samvinnu við Veiðimálastofnun, Háskólann á Akureyri, LS og Hafró.  Frábært samstarf við grásleppuveiðimenn hringinn í kringum landið hefur þó verið frumforsenda þess að vel hefur til tekist með verkefnið. Ýmsar forvitnilegar upplýsingar hafa nú þegar fengist út úr því, eins og t.d. að sú gráa er mun frárri á sporði en nokkurn grunaði, jafnt móti straum sem með.  Þær upplýsingar sem líklega eru þó markverðastar, sýna að langflest hrognkelsi hrygna aðeins einu sinni um sína ævidaga.

Það kom veiðimönnum mjög á óvart, að árið var vart liðið frá því ráðinn var sérstakur starfsmaður til þessara rannsókna, þar til Hafró taldi réttast að leggja til aflahámark/kvóta á grásleppuveiðarnar. Það er óhætt að orða það svo að veiðimenn eru flemtri slegnir vegna þessarar uppákomu. Rannsóknir eru varla hafnar þegar stofnunin leggur til gjörbyltingu á fyrirkomulagi sem, að hennar eigin sögn, hefur gefist ágætlega.

Í skýrslu Hafró fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 segir orðrétt:

„Markaðsaðstæður ráða miklu um sókn í hrognkelsastofninn og skýrir það að talsverðu leyti sveiflur í veiðum síðustu ára. Hagsmunaaðilar hafa komið að stjórnun veiðanna, meðal annars með því að takmarka lengd vertíðar, að því er virðist með ágætum árangri undanfarin ár.

Í skýrslunni fyrir fiskveiðiárið 2010/2011 segir:

„Hagsmunaaðilar hafa komið að stjórnun veiðanna, meðal annars með því að takmarka lengd vertíðar. Hins vegar er áhyggjuefni að fjöldi leyfa í notkun við grásleppuveiðar hefur aukist undanfarnar vertíðir og fjölgaði enn á yfirstandandi vertíð. Sókn í stofninn jókst um ríflega þriðjung frá árinu 2008 til 2009 en aflinn var samt sem áður ívið minni en á vertíðinni 2008. Hafrannsóknastofnunin telur að fara beri varlega við nýtingu stofnsins en leggur ekki fram tillögu um hámarksafla fyrir fiskveiðiárið 2010/2011.

Í skýrslu stofnunarinnar frá því í fyrra, um ástand nytjastofna og aflahorfur fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 kveður hinsvegar við nýjan tón:

„Ár hvert ráða markaðsaðstæður og veðurskilyrði miklu um það hver landaður afli og sókn verður á grásleppuvertíð. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar hafa stjórnað veiðum með því að takmarka lengd vertíðar, fjölda neta sem hver bátur getur lagt í sjó og fjölda báta með leyfi. Þó að þetta virðist hafa gefið nokkuð góða raun sem veiðistjórnun hafa á síðustu árum komið fram ýmis atriði sem valda áhyggjum. Þau eru helst aukin sókn, lækkun afla á sóknareiningu, lækkun stofnvísitalna beggja kynja (grásleppu í lífmassa, rauðmaga í fjölda) og hækkun vísitölu veiðihlutfalls. Því er ljóst að þörf er á markvissari stjórnun hrognkelsaveiðanna.  Með hliðsjón af framangreindu leggur Hafrannsóknastofnunin til að fiskveiðiárið 2011/2012 verði afli á vertíð ekki meiri en sem nemur um 3700 tonnum sem samsvarar um 7700 tunnum af söltuðum hrognum. Ráðgjöfin byggir á stofnvísitölu grásleppu 2011 og miðar við að vísitala veiðihlutfalls verði nálægt meðaltali tímabilsins 1985-2010. Þessi ráðgjöf verður endurskoðuð þegar nýjar upplýsingar úr stofnmælingu botnfiska í mars 2012 liggja fyrir.

Á aðeins þremur árum breyttist mat Hafró á ástandi grásleppunnar frá því að virðast ganga ágætlega yfir í allt að því neyðarástand.

Í skýrslunni fyrir 2009/2010 (sem á við grásleppuvertíðina 2010) er allt í stakasta lagi og náttúran fór sínu fram. Grásleppuvertíðin 2010 gaf um 18 þúsund tunnur á 62 veiðidögum.  Þessi vertíð var því ein sú albesta frá upphafi og sé verðið til veiðimanna tekið með í reikninginn, sú albesta.

Í skýrslunni lagði Hafró ekki fram tillögur um hámarksafla/kvóta.  Ef hún hefði gert það með þeirri aðferðafræði sem nú hefur verið kynnt til sögunnar hefði ráðgjöfin hljóðað uppá u.þ.b. 8 þúsund tunnur.  Verðmæti 10 þúsund tunna var þá um 2 milljarðar, sem hreinlega hefðu glatast.

Í skýrslunni fyrir fiskveiðiárið 2010/2011 er vart að sjá að stofnunin sé þjökuð af áhyggjum vegna ástands grásleppustofnsins.  Þó er bent með réttu á aukna sókn, en ekkert tal um heildarafla.  Vertíðin 2011 var engu að síður stytt í 50 daga, eða um hátt í 20%, að ósk veiðimanna. Veður voru og mun vályndari en metárið 2010.  Heildarveiðin varð engu að síður hátt í 11 þúsund tunnur, eða rétt undir 10 ára meðaltali.  Munurinn á ráðgjöfinni og veiðinni var um 3000 tunnur, þá að verðmæti milli 500-600 milljónir.

Það er svo í skýslunni fyrir 2011/2012 að Hafró leggur í fyrsta skipti til hámarksafla við grásleppuveiðar, uppá 7700 tunnur. Ráðgjöfina sagðist stofnunin byggja á stofnvísitölu grásleppu 2011 (togararall) en þessi ráðgjöf birtist ekki fyrr en grásleppuvertíðin var hafin.  Stjórnvöld ákváðu að láta kyrrt liggja.

Hvorugt framangreint virðist hafa haft mikil áhrif á nálgun Hafró.  Í skýrslu stofnunarinnar sem kom út fyrir skömmu, fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 (vertíðina 2013) er slegið rækilega í klárinn.  Nú er að auki komin inn hugmynd um „upphafskvóta. 

Orðrétt:

„Með hliðsjón af framangreindu leggur Hafrannsóknastofnunin til að upphafsaflamark grásleppu fiskveiðiárið 2012/2013 verði ekki hærra en sem nemur um 1700 tonnum sem samsvarar um 3500 tunnum af söltuðum hrognum, byggt á grásleppuvísitölu úr SMB 2012 (togararalli í mars). Hafrannsóknastofnun mun að lokinni stofnmælingu í mars 2013 veita ráðgjöf um heildaraflamark fiskveiðiársins.

Fyrsta spurningin sem kviknar við að grúska í þessum gögnum Hafró er þessi:  Hvað hefur stofnstærð tiltekið ár að gera með ráðgjöf Hafró um heildarafla á sama ári?

Fyrir liggur að hún hrygnir nánast öll bara einu sinni og sé gengið út frá því að veiðin, sem alltaf hefur verið undir sóknartakmörkunum, endurspegli nokkuð vel stofnstærðina ætti að vera nokkuð auðvelt að sjá samhengi milli hrygningarstofns og veiðistofns 4 – 5 árum síðar, en talið er að það sé aldur hennar við hrygningu. Taflan hér að neðan ber þess tæpast merki að slíkt samhengi sé þar að finna.

Screen Shot 2012-06-18 at 5.35.40 PM.png

Það er óhætt að fullyrða, að tillögur Hafró ná langt með að gera út um grásleppuveiðar hérlendis, fari stjórnvöld eftir þeim.  Fyrir það fyrsta þarf að kvótasetja grásleppuna og fróðlegt verður að vita hvernig sú aðgerð ætti að fara fram.  Allir sem þekkja til grásleppuveiða vita að þær eru að mörgu leyti flóknari en annar veiðiskapur.  Í þessu sambandi er íhugunarefni að eina landið sem notar kvóta við grásleppuveiðar er Noregur. Þar hefur áhuginn stöðugt dvínað, kvótarnir eru litlir, þá má ekki sameina og „uppbyggingarstarfið lætur ekkert á sér kræla.

Vissulega byggja allar veiðar á bjartsýni og von veiðimannanna, en ætli vonin sé nokkursstaðar sterkari við fiskveiðar á Íslandi, en einmitt í eltingarleiknum við þá gráu. Sú von yrði að engu á svipstundu.