Sérkennilegt innlegg á Sjávarútvegsráðstefnu
Ímyndarvandi útgerðarinnar
Er yfirskrift greinar eftir Axel Helgason sem birtist í Fiskifréttum í dag 1. desember
Þegar ég tók nýlega við sem formaður Landssambands smábátaeigenda bjóst ég ekki við að þurfa strax í upphafi að verjast árásum stórútgerðarinnar. Þó að í fjarlægð væri ég búinn að fylgjast með áróðri hennar gegn smábátaútgerðinni og upplifa hve sterk tök hún virðist hafa á stjórnmála- og embættismönnum.
Ósannar slysatölur
Á nýlokinni Sjávarútvegsráðstefnu 2016 var markaðsstjóri HB Granda, Sólveig Arna Jóhannesdóttir, með lokaerindi ráðstefnunnar undir yfirskriftinni „Viðhorf, ímynd og hagsmunir. Í erindinu kaus markaðsstjórinn að eyða drjúgum hluta síns erindis í að hjóla í smábátaútgerðina með ósmekklegum hætti. Þar kaus hún að höfða til tilfinninga „sem sjómannsdóttir og sjómannssystir’ með ósannindum um slysatölur á strandveiðum og vísar til „upplýsinga frá Fiskistofu og Rannsóknarnefnd sjóslysa.” Á árunum 2010-2015 sagði hún að að meðaltali hefðu orðið 22 slys á sjómönnum við strandveiðar og að 2013 hefði skorið sig úr með 42 slys af 169 slysum sem verið hefði heildarfjölda slysa það árið.
Réttu tölurnar
Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa sem ég hef undir höndum urðu samtals 53 slys á sjómönnum árið 2013. Ekkert slys varð á strandveiðibátum, en 14 slys urðu á togveiðiskipum, 17 slys á öðrum skipum og 6 slys á skipum undir 20 BT.
En Sólveig Arna var ekki hætt. Hún bætti í og jók á ósmekklegheitin með því að segja „fyrir utan mannlegar þjáningar þá kosta þessi slys samfélagið einnig fjármuni.’ Hafi Sólveig Arna einhverja sómatilfinningu hlýtur hún að biðjast opinberlega afsökunar á þessum ósannindum.
Rök og reglur
Sólveig Arna spurði: „Handfæraveiðar verði gefnar frjálsar, hver eru rökin fyrir því?’ Hún kom því strax að að hún hefði áhyggjur af því að vottanir sem meðal annars byggja á aflareglu myndu vera í hættu og spurði hvaðan aflaheimildirnar ættu að koma. Því skal fljótt svarað, frá þeim sem eru aflögufærir.
Landssamband smábátaeigenda hefur lagt áherslu á að strandveiðar verði efldar með ábyrgum hætti á þann veg að heimilt verði að veiða 650 þorskígildiskíló fjóra daga í viku í fjóra mánuði yfir sumarið. Hún spurði hvaða reglur ættu að gilda um meðferð aflans við „þessar veiðar?” Ég spyr á móti, eru einhverjar reglur til um hámarks togtíma á togveiðum eða hve fiskur má vera lengi í móttöku á togara áður en hann fer í kælingu? Er þörf á slíkum reglum?
Kæling aflans
Eftir að Sólveig Arna upplýsti ráðstefnugesti um að „fiskur væri ákaflega vandmeðfarin vara, mun viðkvæmari en kjöt til að mynda,” varpaði hún einnig fram þeirri spurningu hvort skjót og góð kæling afla við handfæraveiðar væri tryggð? Svarið við því er afdráttarlaust já og alveg tryggt að aflinn er ekki dauðblóðgaður. En eins og í öllum starfsgreinum er misjafn sauður í mörgu fé og þeir sem ekki standa sig í kælingu afla ættu að fá aðhald frá fiskmörkuðunum og/eða kaupendum aflans, en þar virðist pottur vera brotinn.
Smábátaútgerðin svert
Það er áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna markaðsstjóri stærsta útgerðarfélags Íslands kjósi undir yfirskriftinni „Viðhorf, ímynd og hagsmunir reyni að sverta smábátaútgerðina með rakalausum þvættingi um slys og gæðamál. Ef til vill las hún nýlega skýrslu MATÍS þar sem fram kemur að sótspor við veiðar á smábátum er að meðaltali þrisvar sinnum lægra en á togveiðum og telur að stórútgerðinni stafi ógn af smábátaútgerð af þeim sökum. Því vottanir sem taka mið af umhverfisþáttum eins og kolefnislosun munu verða algengari á næstu misserum og þar mun smábátaútgerð ávallt skara fram úr, tala nú ekki um þegar við fáum félagshagfræðina inn í vottanirnar.
Umhverfisvænstu veiðarnar
Ímyndarvandi stórútgerðar verður ekki leystur með því að rakka niður umhverfisvænstu veiðar sem fyrir finnast. Með tilkomu strandveiða hefur skapast meiri sátt meðal almennings um kvótakerfið og ef við förum að vinna saman að því að skapa íslenskum sjávarafurðum sérstakan sess á heimsvísu með tilliti til ábyrgrar nýtingar auðlindarinnar og umhverfisvænleika veiða okkar, höfum við margt að vinna.
Veltum fyrir okkur hvort vænlegra sé í markaðssetningu að höfða til neytenda með mynd af glaðlegum veðurbörðum sjómanni á smábát að landa vel ísuðum afla í körum eða með mynd af bretti hlöðnu af pappakössum híft frá borði frystitogara?
Upptöku af málflutningi Sólveigar Örnu má finna á youtube.com undir leitarorðunum „Ímyndarvandi”.
Höfundur er formaður
Landssambands smábátaeigenda.