Innflutningi synjað

Frá því er greint á heimasíðu Matvælastofnunar MAST að í október sl. hafi stofnunin synjað tveimur fyrirtækjum um endurinnflutning á grásleppuhrognakavíar.  Ákvörðunin var kærð til Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins sem nú hefur staðfest synjun MAST.
Saga þessa máls teygir sig til vorsins 2015 þegar framleiðendurnir fluttu héðan 2,5 tonn af fullunnum grásleppuhrognum – kavíar.  Áfangastaður var Japan.  Þegar þangað kom var gámurinn strax sendur til baka þar sem uppgötvast hafði að liturinn á hrognunum var ekki sá sem Japanir höfðu beðið um.
Þegar gámurinn skilaði sér til Íslands synjaði MAST um endurinnflutning þar sem upplýsingar um framleiðanda vörunnar vantaði á umbúðir vörunnar og varan væri ekki merkt með svonefndu „auðkennisnúmeri starfsstöðvar.  Með því móti væri rekjanleiki ekki tryggður.  
Í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir staðfestingu á synjun var bæði vísað til laga um sjávarafurðir og Evrópureglugerða sem innleiddar hafa verið á hér á landi.