Fjölmargir smábátaeigendur hafa haft samband við skrifstofu LS í dag og lýst vonbrigðum með þá ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að heimila ekki áframhald færaveiða á makríl. Meðal þess sem fram kom í samtölum við félagsmenn var krafa um að félagið stæði fast á þeim skilningi sínum að Fiskistofa hefði ekki heimild til að stöðva veiðarnar fyrr en 1200 tonna afli tímabilsins sem hófst 1. september hefði verið veiddur.
Þar sem umleitanir LS gagnvart ráðuneytinu síðasta sólarhringinn hafa ekki borið árangur hefur lögmanni félagsins Magnúsi Hrafni Magnússyni hrl verið falið málið, enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir félagsmenn. Sérstaklega þeirra sem nýlega hafa hafið veiðar og stóluðu á 1200 tonna pottinn í september.
Fh. LS hefur Magnús Hrafn sent ráðuneytinu bréf þar sem krafist er afturköllunar ákvörðunarinnar. Öðrum kosti áskilur Landssambandið sér rétt til að nýta þau úrræði sem félaginu standa til boða í að vernda hagsmuni félagsmanna sinna.