Kvótasetning grásleppu ekki áhættunnar virði

 
Atvinnuveganefnd Alþingis bárust 16 umsagnir við mál nr 976, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).  Nefndin sendi umsagnarbeiðnir til 137 aðila og eru því endurheimtur frekar slakar.  
 
 
Hægt að uppfylla í núverandi veiðikerfi
Í umsögn LS segir m.a. að félagið hafi að vel athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að veiðistýring á grásleppu með aflamarki svari engu af því sem ekki er hægt að uppfylla í núverandi veiðikerfi.  Fjöldi veiðidaga, veiðarfæra og veiðileyfa,  takmarkar það magn sem má veiða auk þess er stofninn verndaður með því að óheimilt er að stunda veiðarnar á bátum 15 brt. og stærri.
 

Stærðartakmörk afnumin 

Með frumvarpinu er lagt til að afnema stærðarmörk báta.  Heimila þar með flutning veiðiheimilda á 100 tonna skip ef því er að skipta.  Jafnframt að takmarkanir á fjölda neta verða ekki lengur í gildi.  Ákveðin veiðisvæði sem nú hafa rúmað 5 – 10 báta gætu því verið teppalögð af netum frá einum báti og gert minni bátum ókleift að taka þátt í veiðunum.  Þó hámarksaflahlutdeild verði 2%, eru engar takmarkanir á hversu mikið skip má veiða á hverri vertíð.  Viðkomandi getur þannig flutt til sín aflamark og veitt langt umfram 2% af leyfilegum hámarksafla.
 
Úr umsögn LS
„Í framtíðinni verða því ekki tíu eða fleiri grásleppubátar sem hefja veiðar frá hinum dreifðu byggðum.  Breytingarnar valda gríðarlegum áhrifum á það útgerðarform sem verið hefur.  LS gagnrýnir að Matvælaráðuneytið hafi ekki kallað til sérfræðinga til að leggja mat á áhrif þessara þátta á hinar dreifðu byggðir, mannlíf, menningu og verðmæta sem þær búa yfir.  Hvaða áhrif það hefði á byggðarlögin að útgerð hefðbundinna grásleppubáta myndi fjara út á næstu árum.  Í þeirra stað kæmu stærri bátar þar sem handhafi aflahlutdeildarinnar væri í fæstum tilvikum um borð og áhöfnin ekki með heimilisfesti í plássinu.
 
 
Ætla má að afnám stærðarmarka eigi rætur sínar að rekja til eftirfarandi ákvæðis í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar: 
 
„Óheimilt er að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru. 
 
Á upplýsingasíðu Fiskistofu eru 186 skip og bátar skráð með grásleppu sem afla það sem af er ári.  Á yfirstandandi vertíð hafa 129 grásleppubátar hafið veiðar.  Samkvæmt því eru 57 skip með skráðan grásleppuafla.  Auk uppsjávarskipa, eru á skránni dragnóta-, netabátar og togarar.  Aflatölur eru sláandi:

Bárður SH  – þorskanet

8.141 Kg 

Óli Bjarnason – net og dragnót

1.623 Kg

Málmey SK  – botnvarpa

7.641 Kg

 
Vegna tilvitnaðs ákvæðis í umgengnislögum myndu þessi skip auk fjölda annarra verða að færa til sín aflahlutdeild eða aflamark í grásleppu.  Dæmi eru um stórar útgerðir sem þegar hafa gert það.  Grásleppa sem þeir veiða verður því ekki veidd af hefðbundnum grásleppubát
 
 
Framsal takmarkað

Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að veiðiheimildum verði skipt niður á sjö veiðisvæði (þau sem nú eru) og úthlutað til þeirra báta sem þar eru skráðir.  Óheimilt verði að flytja aflahlutdeild eða aflamark milli veiðisvæða.  Samþjöppun aflahlutdeilda í grásleppu geti því aðeins orðið innan hinn staðbundnu veiðisvæða., eins og segir í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.  Náttúrulegar aðstæður (ef upp koma óvæntar aðstæður, svo sem ef grá­sleppa hverfur af veiðisvæðinu og algjör aflabrestur verður) heimila þó ráðherra að víkja frá því og heimila útgerðum að flytja aflamark milli svæða.
 
 

Veiðiskylda   
Í umsögn LS er vakin athygli á að með aflamarki verður til 50% árleg veiðiskylda. 
„Fjölmargir bátar sem stundað hafa grásleppuveiðar undanfarin ár hafa ekkert aflamark.  Setning aflamarks á grásleppu myndu skapa þeim þó nokkur vandræði.  Þeir gætu t.d. ekki svarað tilboðum um lág verð frá kaupanda með því að hefja ekki veiðar.  Veiði þeir ekki 50% eða meira e-a vertíðina missa þeir aflahlutdeildina og þar með kvótann.  Hætt er við að af þessum sökum sé sjálfhætt fyrir fjölmarga, sem skilur eftir sig verðlítinn bát, verðlausan búnað um borð ásamt veiðarfærum.
 
 
Rökstudd gagnrýni
Í greinargerð með frumvarpinu er gerð grein fyrir tilurð og nauðsyn frumvarpsins.
 
Í umsögn LS er þeim þáttum gerð skil í sex tölusettum liðum.  Í sjötta lið er sérstaklega vikið að stuðningsyfirlýsingu grásleppusjómanna við frumvarpið.
Þar segir:
„Þá afhentu grá­sleppusjómenn þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 8. desember 2020 stuðn­ings­yfirlýsingu við frumvarpið (151. löggjafarþingi 2020-2021 (419. mál)) en yfirlýsingin var undirrituð af 244 leyfishöfum, eða 54% þeirra sem þá höfðu leyfi til veiða grásleppu. 

Aths. LS
„Bent skal á að haustið 2018 kostaði LS skoðanakönnun meðal félagsmanna sem höfðu rétt til grásleppuveiða.  Gallup sá um framkvæmdina.  Úrtakið var 451 og var þátttökuhlutfall 74,9%.  Spurt var:  Hvort vilt þú frekar núverandi fyrirkomulag veiðistjórnunar eða aflamarks á grundvelli aflahlutdeildar sem ákvarðast af veiðireynslu frá 2013-2018, þar sem miðað verður við þrjú bestu árin?   54,7% vildu halda sig við núverandi veiðifyrirkomulag.
  
LS vekur athygli á að könnun sem vitnað er til í frumvarpinu var framkvæmd af aðilum sem voru fylgjandi því að sett væri á aflamark, auk þess sem könnunin fór fram í aðdraganda mikillar óánægju með mistök í stjórnun veiðanna vertíðina 2020 (sjá nr. 2).  
 
 
Tryggja betur sjálfbærar veiðar

Svar LS.

Að mati stjórnvalda er megin forsenda fyrir sjálfbærum veiðum sú, að ekki verði veitt umfram leyfilegan heildarafla sem ráðherra ákveður þar sem byggt er á ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun.  Myndin hér að neðan sýnir að við núverandi veiðistýringu hefur því markmiði verið náð.

Screenshot 2023-05-22 at 13.41.22.png

 
Umögn LS við frumvarpið