Kvótasetning grásleppuveiða?

Fyrir rúmri hálfri öld eða hafísvorið 1969 tók ég síðast þátt í grásleppuveiðum. Ég hef því í dag enga hagsmuni af slíkum veiðum. Á undanförnum 35 árum hef ég skrifað fleiri blaðagreinar og ræður en ég hef tölu á þar sem ég hef gagnrýnt margar hliðar kvótakerfa sem og fiskifræðilegar forsendur þeirra. Þótt ýmislegt jákvætt megi segja um slík kerfi er enginn vafi á að íslenska kvótakerfið á mikinn þátt í þeirri gríðarlegu misskiptingu auðs, áhrifa og valda sem orðið hefur til í samfélagi okkar á liðnum áratugum. Þá hefur kvótakerfið meira en flest annað ógnað útgerð smábáta sem og afkomu og aðstöðu smærri sjávarbyggða allt í kringum landið og þar með smábátaeigenda sjálfra á þeim stöðum. 
maggi (mynd Haraldur Guðjónsson) (1).png
Þetta er rifjað upp hér í ljósi þess að allstór hópur félaga minna í Landssambandi smábátaeiganda hefur að undanförnu undirritað bænaskjal til sjávarútvegsráðherra um að innleiða kvótakerfi í veiðum á grásleppu. Þetta er mér af mörgum ástæðum illskiljanlegt ekki síst í ljósi þess að þessi sami ráðherra hefur með ýmsum hætti lagt sig í framkróka við að skaða stöðu smábátaútgerðar í landinu og er þar skemmst að minnast stjórnsýslu hans í tengslum við síðustu grásleppuvertíð sem og strandveiðarnar sl. sumar. 
   
Forsendur kvótasetningar                                                                                                        
Allt frá því að stóra kvótakerfinu var komið á hér á landi hafa forsendur þess verið þær að vernda fiskistofna og tryggja sjálfbærni við veiðar þeirra á grundvelli vísindalegrar þekkingar. Þótt margt megi segja um árangur af því hingað til hafa engin slík rök komið fram fyrir því að kvótasetja grásleppuveiðar enda er þekking á þessum fiskistofni af skornum skammti. Nægir þar að nefna nokkur staðfest dæmi:

1.   Vitað er að grásleppu (hrognkelsi) er að finna á öllu hafsvæðinu frá Grænlandi um Ísland og 
      allt til Noregs og Barentshafs. Hins vegar er ekkert vitað hvaða hluti stofnsins hrygnir við 
      Ísland, hvað við Grænland og hvað við Noreg.

2.   Fiskifræðingar halda að grásleppurnar við Grænland komi til Íslands og að þær hrygni raunar 
      alls ekki við Grænland en það er fjarri því að vera sannað.

3.   Menn þekkja heldur ekki hversu gömul hrognkelsin verða, hve lengi þau dvelja í djúpsjó og 
      hversu hratt þau vaxa.

4.   Vitað er að grásleppan hrygnir á löngu tímabili allt frá mars og fram í ágúst en ekkert er vitað 
      um skýringar á því eða hvaða áhrif það hefur á stofninn. 

5.   Mjög skiptar skoðanir eru á því hvort grásleppan hrygni einu sinni eða oftar og hvort hún 
      drepist þá að lokinni hrygningu. Samt eru settar fram kenningar um að hver grásleppa hrygni 
      á sama tíma ársins frá ári til árs.

6.   Nánast ekkert er vitað um karldýrið þ.e. rauðmagann, ferðir hans og lífsstíl.

7.   Vitað er að grásleppan er mestan hluta ársins uppsjávarfiskur fjarri landi en kemur upp á 
      grunnsævi til hrygningar. Samt eru togveiðar með botntrolli utan 12 mílna helstu 
      rannsóknargögnin við stofnmælingar og útreikninga á stærð og veiðiþoli grásleppustofnsins.

8.   Loks er vitað að oft fæst gríðarlegt magn af grásleppuungviði í flottroll, ekki síst við 
      loðnuveiðar. Engar upplýsingar eru um að þetta hafi nokkur áhrif á rannsóknir á stofnstærð 
      né vísindalega ráðgjöf um árlegar veiðar á grásleppu.
Hafandi þessar staðreyndir tel ég að forsendur fyrir kvótasetningu séu annaðhvort pólitískar eða tengdar þröngum sérhagsmunum og hafi raunar ekkert með vísindi og þekkingu að gera.
Áhrif kvótasetningar           
Enginn vafi er á að áhrif kvótasetningar á grásleppu verða veruleg bæði innan smábátaútgerðarinnar en ekki síður innan sjávarbyggðanna. Öll reynsla af kvótasetningu fiskistofna er hröð samþjöppun veiðiheimilda og í reynd lokun á greininni. Grásleppuveiðarnar hafa oft verið gluggi til nýliðunar í sjómennsku og útgerð en hann myndi að mestu lokast með kvótasetningu. Af þeim 350 virku veiðileyfum til grásleppuveiða í dag þykir mér líklegt að þeim muni fækka um a.m.k. helming á næstu þremur árum, enda takist íslenskum stjórnvöldum að koma í veg fyrir endalok þessara veiða fyrr vegna umhverfisöfga sem nú er hótað frá Bandaríkjunum. 
Þá er ljóst að kvótasetning grásleppu mun hafa veruleg áhrif á mörg sjávarplássanna í landinu. Sennilegt er að grásleppuveiðar muni sums staðar leggjast alveg af en slíkt getur haft umtalsverð áhrif á mörg minni sjávarþorpin. Í ljósi þess hversu lítil þekking er á hegðan og stærð grásleppustofnsins er allt eins líklegt að komi gæti upp staða þar sem sum veiðisvæði umhverfis landið yrðu vannýtt og önnur jafnvel ofnýtt.
Lokaorð          
Í mínum huga er lítill vafi á því að sjávarútvegsráðherra braut stjórnsýslulög með stjórn sinni á grásleppuveiðum sl. vor. Tilgangur hans með þeirri framgöngu var ekki síst að eyðileggja það sóknarkerfi sem verið hefur lengi við líði innan greinarinnar og honum var augljóslega þyrnir í augum, ekki síður en stórútgerðinni í landinu. Þannig helgaði tilgangurinn meðalið. Um leið sá hann tækifæri til að koma svo mörgum óánægjusprengjum fyrir í hópi grásleppuveiðimanna að margir myndu ganga í lið með honum við að innleiða kvótakerfi á veiðarnar. Það minnir mig á Stokkhólmsheilkennið sem varð til árið 1973 þegar mannræningjar sneru fórnarlömbum sínum á sveif með sér á meðan á ráninu stóð. 
Verði grásleppuveiðarnar kvótasettar er nánast öruggt að ásókn eykst í strandveiðarnar. Það þýðir að þær verður að skerða, ekki síst ef strandveiðipotturinn verður fast hlutfall af árlegum heildarkvóta eins og hugmyndir ráðherra um 5,3%-pottinn gera ráð fyrir. Ef honum tekst kvótavæðing grásleppunnar er ekki ósennilegt að hann muni reyna svipaða aðferð við strandveiðarnar. Með því að skerða þær meira og meira (eins og hann byrjaði með í ágúst sl.) er allt eins líklegt að upp komi krafa meðal einhvers hóps strandveiðimanna að setja þær í kvóta. 
Magnús Jónsson formaður 
Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar
PS: Í þessari grein koma einungis fram persónulegar skoðanir höfundar.