Í Morgunblaðinu (200 mílur) þann 1. september birtist viðtal við Lilju Rafneyju Magnúsdóttur formann atvinnuveganefndar Alþingis. Lilja kemur víða við og leggur sérstaka áherslu á mikilvægi smábátaútgerðarinnar.
Fyrirsögn viðtalsins er:
„Ég vil nálgast þetta mál þannig að hagur og staða minni útgerðarfyrirtækja sé tryggð sem best og þar með nauðsynleg fjölbreytni útgerðarflokka í greininni. Slíkt er hægt að gera með því að efla sérstaka afslætti til þeirra. Við þurfum að standa með litlu útgerðunum sem eru hryggjarstykkið í mörgum byggðarlögum og skapa byggðafestu og atvinnuöryggi . Fyrirtækin þurfa að hafa tækifæri til að vaxa og dafna,
„Veiðigjöldin þarf að endurskoða með tilliti til þess að litlu og meðalstóru fyrirtækin geti lifað af. Við sem sitjum á Alþingi megum ekki drukkna í útópíu eða hugmyndafræði um hvað sé hægt að leggja á há veiðigjöld án tillits til ólíkrar afkomu, samfélags og byggðarsjónarmiða. Það má ekki gleymast í þessari umræðu að það er nauðsynlegt að gera fiskveiðistjórnunarkerfið sjálft réttlátara og efla nýliðun og sporna við áframhaldandi samþjöppun í greininni. Allar stjórnvaldsaðgerðir þurfa að taka mið af veruleikanum hverju sinni og litlu fyrirtækin þurfa að eiga sér von. Atvinnulífið þarf að vera fjölbreytt og byggð öflug um allt land og í því efni er sjávarútvegurinn mikilvæg undirstaða.