Fiskistofa birti tilkynningu þann 16. mars sl. um að línuívilnun í þorski félli niður frá og með deginum í dag 18. mars. Jafnframt að hún yrði endurvakin þann 1. júní nk.
Reglugerð sem nú hefur verið birt í Stjórnartíðindum ógildir hins vegar tilkynningu Fiskistofu. Þar er gerð breyting á reglugerð um línuívilnun þannig að viðmiðun í þorski á tímabilinu 1. júní til og með 31. ágúst 2021 er færð til yfirstandandi tímabils. Þorskafli tímabilsins verður því innan þeirra marka sem kveðið er á um.
Í bréfi sem LS ritaði sjávarútvegsráðherra 11. febrúar sl. er farið fram á að viðmiðun til línuívilnunar verði aukin þannig að hún gildi allt fiskveiðiáúrið. Bent var á að viðmiðun í þorski og ýsu til ívilnunar hefðu verið skertar úr hófi fram á sl. þremur árum. Ástæðan væri að hún hefði ekki verið nýtt að öllu leyti. Af sömu ástæðu er eðlilegt að bæta við þegar afli til línuívilnunar er meiri en gert hafði verið ráð fyrir.
Þetta er sagt hér til áréttingar kröfum LS að hækka verður aflaviðmiðun til að geta mætt afla til línuívilnunar fyrir allt fiskveiðiárið.
Umfjöllun um línuívilnun