Árborg hélt aðalfund 15. september sl. Fundurinn var málefnalegur og tókust menn á um einstök málefni.
Þorvaldur Garðarsson var endurkjörinn formaður Árborgar.
Eftirfarandi tillögur voru samþykktar sem innlegg félagsins til 27. aðalfundar LS sem haldinn verður 13. og 14. okt. nk.:
1. Aðalfundur Árborgar beinir því til aðalfundar LS að allar leiðir verði reyndar til að koma í veg fyrir afnám sjómannaafsláttarins.
2. Aðalfundur Árborgar leggur til að aðalfundur LS beiti sér af alefli fyrir því að beitningarvélabátar sem eru minni en 15 metra langir og stunda dagróðra með línu fái línuívilnun til jafns við þá sem róa með uppstokkaða línu þ.e 15%.
3. Aðalfundur Árborgar leggur til að aðalfundur LS beiti sér fyrir lagfæringu á strandveiðikerfinu sem felst í því að heildarpottur hvers svæðis sé reiknaður í þorslígildum eins og dagsafli hvers báts. Einnig leggur fundurinn til að strandveiðar hefjist um leið og hrygningarstoppi líkur 21. apríl. Einnig geti menn sagt sig frá kerfinu um hver mánaðarmót.
4. Aðalfundur Árborgar leggur til að aðalfundur LS hafni alfarið inngöngu Íslands í Evrópusambandið og mótmæli aðildarumsókninni harðlega.
5. Aðalfundur Árborgar beinir því til aðalfundar LS að mótmæla því kröftuglega hversu úgefnir kvótar í þorski, ýsu og löngu eru litlir miðað við gott ástand þessara fiskistofna.
6. Aðalfundur Árborgar beinir þeim tilmælum til aðalfundar L.S. að berjast af hörku gegn því að sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið verði sameinað öðrum ráðuneytum.
7. Aðalfundur Árborgar beinir því til aðalfundar LS að frumvarpi sjávarútvegsráðherra um sjávarútvegsmál (stóra frumvarpið) verði hafnað algerlega og allt gert sem hægt er til að tefja eða hindra framgang málsins.