Línuívilnun – ráðherra skerðir heimildir

Á aðalfundi LS 2019 var mikið rætt um línuívilnun og þá þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár að sífellt færri bátar notfæri sér hana.  Helstu ástæður þess eru að veiðiheimildir hafa í auknum mæli færst til stærstu krókaaflamarksbátanna sem flestir eru með beitningarvél og fá því ekki ívilnun. 
 
LS hefur á undanförnum árum brugðist við þessari þróun og hvatt ráðherra til að beita sér fyrir breytingu á lögum þannig að allir dagróðrabátar á línu fái ívilnun.  Með því yrði tryggt að veiðiheimildir til hennar mundu nýtast að fullu. 
 
Georg copy 2.jpg
Á aðalfundinum var ályktun þessa efnis ítrekuð og því mótmælt harðlega að viðmiðunarafli til línuívilnunar væri skertur.  Skorað var á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir breytingum þannig að línuívilnun mundi gilda fyrir alla dagróðrabáta minni en 30 brúttótonn og styttri en 15 metrar.  Við landbeitningu yrði hún 30% (er nú 20%), 20% (15%) við uppstokkun og 10% (0%) fyrir báta með beitningarvél. 
Jafnframt krafðist fundurinn þess að línuívilnun í ýsu yrði aukin verulega, færi úr 20% í 45%, 15% í 30% og 0% í 15% hjá fyrrgreindum flokkum. 
Ráðherra hefur ekki orðið við samþykkt aðalfundar LS.  Hann hefur borið það fyrir sig að verið væri að endurskoða reglur um 5,3% pottinn.  Þrátt fyrir þá endurskoðun hefur hann skert hlut línuívilnunar um tugi prósenta.  Þorskveiðiheimildir til línuívilnunar á nýbyrjuðu fiskveiðiári eru 1.800 tonnum lægri en fyrir tveimur árum, hafa lækkað um 60%.  
  

Viðmiðun til línuívilnunar

Fiskveiðiár

Þorskur

2018/2019

3.000 tonn

2019/2020

2.000 tonn

2020/2021

1.200 tonn

Rétt er að vekja athygli á að samhliða því sem þorskveiðiheimildir til línuívilnunar eru skertar dregur úr möguleikum á færslu til strandveiða þegar vel árar á þeim bæ.  Ónýttar heimildir frá línuívilnun til strandveiða eða öfugt verða vart til staðar.  Sannarlega við hæfi að slá tvær flugur í einu höggi þegar smábátaútgerðin er annars vegar.  Staða hundruð sjálfstæðra útgerðarmanna færð skör neðar.  Möguleikar þeirra á að keppa um aflaheimildir við stærri útgerðir eru rýrðar verulega.  Áhugi ekki merkjanlegur á að breyta þar neinu, þrátt fyrir að góð gildi séu í boði:
hægir á samþjöppun aflaheimilda
 
útgerð dagróðrabáta efld 
nýliðun efld
aukið aflaverðmæti  
LS mun áfram berjast fyrir því að endurheimta þau 3.375 tonn af þorski, sem ætlað var til línuívilnunar þegar þær voru settar í lög 15. desember 2003.  
200902 logo_LS á vef.jpg