LS andvígt kvótasetningu á grásleppu

Fyrir aðalfundi LS lágu nokkrar tillögur um breytt fyrirkomulag grásleppuveiða.  Meirihluti svæðisfélaga LS sem létu sér þau mál varða voru andvíg áformum sjávarútvegsráðherra að kvótasetja grásleppu.
Í umræðu sem átti sér stað á aðalfundinum endurspegluðust þessi sjónarmið.  Bent var á að núverandi veiðifyrirkomulag hefði í stórum dráttum gengið vel.  Heildarafli hefði ekki farið fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar frá því árið 2013 þegar stofnunin hóf að gefa út ráðgjöf.  Veiðikerfið gæfi tækifæri til nýliðunar, þar sem kostnaður við kaup á leyfi væri sanngjarn m.t.t. að viðkomandi öðlist réttindi til fullrar sóknar.  Almennt voru fundarmenn þeirrar skoðunar að lagfæra þyrfti kerfið, hægt yrði að gera hlé á veiðum án þess að skerða veiðidaga.
Þeir sem vildu taka upp aflamark á grásleppuveiðum sögðu að hagkvæmni yrði meiri.  Þeir hefðu sjálfval um hvenær þeir tækju kvótann og gætu skipulagt veiðarnar betur varðandi ráðningu á mannskap.
Hér hafa aðeins verið talin upp helstu sjónarmið sem fram komu.  
Samþykkt fundarins var afdráttarlaus:
„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 
er mótfallinn kvótasetningu á grásleppu.
Auk þessa samþykkti fundurinn nokkrar tillögur um hvernig bregðast skuli við ef til kvótasetningar kemur.